151. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2021.

sala á hlut ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[21:28]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (U):

Herra forseti. Það er með þetta mál eins og mörg þau stærstu að þegar við tökumst á um þau hér í salnum erum við ekki alltaf á sömu blaðsíðu, ekki bara varðandi afstöðu heldur líka skilning á því hvað við erum að ræða. Á köflum líður mér eins og hluti þingmanna sé kominn í frúna í Hamborg og sé strax farinn að ráðstafa peningum fyrir sölu banka sem ekki hefur átt sér stað frekar en að við séum hér að ræða grundvöll fjármálakerfisins til næstu ára og áratuga. Ef ég ætti að skipta salnum í parta eftir því hvorri hliðinni er talað fyrir myndi ég segja að það þingfólk sem lýsir efasemdum í garð þess ferlis sem hér er til umræðu sé líklegra til að ræða um framtíðarsýn hér í sal, til að ræða um það hvort eigi að stokka fjármálakerfið upp til þess að það þjóni almenningi betur, til þess að það þjóni samfélaginu betur, til þess að það þjóni framtíðinni, umhverfinu og öllu því betur sem fjármálakerfið getur svo hæglega gert. Á móti snúast andsvör mikið um það hversu marga milljarða við getum vænst að fá fyrir hversu mörg prósent af þessum banka. Reyndar var það fyrsta sem sló mig í andsvörum hæstv. fjármálaráðherra fyrr í dag þegar hann sagði við hv. þm. Ólaf Ísleifsson að heildarvirði bankans, sem sagt 100% af bankanum, losi örugglega vel rúmlega 100 milljarða. Vá, ekki meira en það, hugsaði ég. Við erum að standa í öllu þessu þrasi fyrir fjórðungshlut af 100 milljörðum.

Tökum þetta í samhengi. Halli ríkissjóðs á þessu ári er 320 milljarðar. Fjórðungur af 100 milljörðum er dropi í það haf. Þetta hjálpar ekkert skuldasöfnun ríkissjóðs. Skoðum þetta út frá fólkinu sem gæti fjárfest í bankanum. Hér tala sölusinnar fyrir því að opna fyrir aðkomu almennings að hlutafjármarkaði þegar raunin er auðvitað sú að bara lítill hluti almennings er aflögufær um að taka þátt í áhættusömum viðskiptum með háar fjárhæðir á hlutabréfamarkaði. En skoðum þær rúmlega 200 fjölskyldur sem eru 0,1% efnamesta fólks í landinu. Það fólk átti 282 milljarða í lok árs 2019. Það gæti keypt allan Íslandsbanka tvisvar og vel það, færi létt með það. Þar með yrði þetta 0,1% mögulega enn ríkara árin 2025, 2029 og um langa framtíð.

Skoðum þetta líka í samhengi við tekjur ríkisins og ekki tekjur ríkisins vegna Covid-19 eða þeirrar kreppu sem við erum að ganga í gegnum. Nei, skoðum þetta í samhengi við að skattlagning á þessu ári er 34 milljörðum lægri en verið hefði ef ekki hefðu komið til skattalækkanir sem ríkisstjórnin hefur ráðist í á þessu kjörtímabili. Þær skattalækkanir renna mjög mikið til efnamesta fólksins sem aftur er í færum til að kaupa banka. Sá peningur sem mögulega fengist fyrir fjórðungshlut í Íslandsbanka væri svona á pari við tekjufallið sem ríkisstjórnin valdi að setja á ríkissjóð. Þetta getur því varla verið spurning um að bjarga tekjum ríkissjóðs.

Svo er náttúrlega öll þessi óvissa sem stjórnarliðar vilja síður að sé talað um en er auðvitað til staðar og snýst bara um hversu óskýrt er talað um allt sem snertir þetta mál. Hvort á að selja 25% eða minna eða meira? Fjármálaráðherra sagði að það færi eftir stemningunni. Það kæmi bara í ljós. Hvort sem það verða 20% eða 30% eða 35% þá verður væntanlega um að ræða ráðandi hlut. Ef þetta safnast á fáar hendur verður þetta hlutur sem getur haft úrslitaáhrif um þá stefnu sem Íslandsbanki tekur, sérstaklega þegar horft er til þess hvernig ríkissjóður stígur inn sem hluthafi í svona fyrirtæki. Við höfum séð það á síðustu árum. Ég ætla ekki að segja að ríkið sé endilega þögull eigandi en ríkið er ansi hæglátur eigandi þegar kemur að því að stýra fjármálastofnunum. Armslengdin verður oft lengri en hún þyrfti að vera. Og það mun skipta miklu máli varðandi Íslandsbanka á næstu árum þegar lán til ferðaþjónustunnar koma á gjalddaga, þegar bankinn þarf að ákveða hvort hann ætlar að standa sína samfélagslegu plikt eða hvort hann ætlar að hámarka afkomu sína.

Ríkið á ekki að standa í bankarekstri, hrópaði fjármálaráðherra hér fyrr í dag. Þetta er náttúrlega grundvallarkennisetningin, þetta er trúarsetningin sem þessi umræða byggir á frá annarri hliðinni. Fjármálaráðherra virtist líka vera svolítið hneykslaður á því að sumir væru einfaldlega þeirrar skoðunar að ríkið hefði hlutverki að gegna sem leiðandi afl og einn af stærri eigendum fjármálakerfis í landinu. Ef það er einhver grundvallarágreiningur á milli fólks ætla ég bara að benda á að ef fólk er ekki þeirrar skoðunar að ríkið hafi hlutverki að gegna sem leiðandi afl á fjármálamarkaði, á þeim fákeppnismarkaði sem íslenskt fjármálakerfi er, þar sem er viðvarandi stöðugur markaðsbrestur, þá bara sorrí, á fólk ekkert erindi í að ráðskast um hvað ríkið eigi að gera. Það er grundvallarhlutverk ríkisins á íslenskum fjármálamarkaði að vera kjölfesta í markaðnum til þess að hann fari í rétta átt.

Þá erum við kannski komin að aðalatriðinu. Vegna þess að umræðan hér snýst svo mikið um milljarðana sem frúin í Hamborg ætlar að gefa fyrir bankann er talað nánast af fyrirlitningu — ég held að það sé eina orðið sem ég á til fyrir tóninn sem kom frá hæstv. fjármálaráðherra í andsvörum við hv. þm. Oddnýju Harðardóttur hér í dag þegar hún viðraði þær hugmyndir að kannski ætti bara að vera samfélagsbanki á íslenskum fjármálamarkaði sem snerist ekki um að hámarka arðsemi heldur að efla grænar fjárfestingar, standa vörð um fólkið í landinu. Þá sagði hæstv. fjármálaráðherra, með leyfi forseta, að við þyrftum þá að taka ákvörðun um það hversu marga tugi milljarða ætti að taka til hliðar til að stofna þennan draumaríkisbanka sem gerði ekkert nema að stunda svona tiltölulega óarðbæra starfsemi. Hver ákvað að arðsemi væri eitthvað sem ætti að hámarka og það væri númer eitt, tvö og þrjú og alltumlykjandi í að reka samfélag? Fjármálakerfið er einn af mótorunum undir þessu samfélagi.

Ég ætla bara að lýsa því yfir að ég er hjartanlega sammála þeirri sýn hæstv. ráðherra, Bjarna Benediktssonar, að draumaríkisbanki væri akkúrat banki sem stundaði tiltölulega óarðbæra starfsemi á mælikvarða fjármálaaflanna. Það er starfsemi sem við þurfum að efla á næstu árum. Það er gullna tækifærið; að byggja upp á Íslandi samfélagsbanka, eða hvað við köllum það, banka sem þjóna öllum almenningi og skipuleggja þá þannig að þeir vinni fyrir framtíðina, að taka þessa tvo stóru banka sem ríkið á og sigta þá saman þannig að ríkið sitji eftir með fólkið og grænu fjárfestinguna og það sem byggir upp hér til framtíðar. Áhættufjárfestingar og hvað það er (Forseti hringir.) sem annað er eftir í þessum bönkum, það eru molarnir sem má einkavæða eins og enginn sé morgundagurinn. (Forseti hringir.) Við sjáum ekkert eftir þeim. En það að einkavæða banka í heilu lagi án þess að hafa farið í gegnum þá grunnvinnu sem þarf við að endurskipuleggja fjármálakerfið, (Forseti hringir.) ekki bara með lögum og reglum heldur með inntaki bankanna meðan við höfum þá í höndunum, það væri óráð.