151. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2021.

sala á hlut ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[22:56]
Horfa

Sara Elísa Þórðardóttir (P):

Virðulegi forseti. Það hefur tekið allan daginn og langt fram á nótt að komast að merg málsins sem var að koma fram í orðum hv. þm. Brynjars Níelssonar. Þetta snýst einmitt um traust og brostnar forsendur í þeim efnum í gegnum tíðina. Það er mergurinn málsins. Það er innihaldið. Því hefði raunverulega ekki þurfti að eyða öllum þessum tíma í að spyrja sömu praktísku spurninganna, að hér kæmi maður eftir mann að spyrja um sömu hlutina.

En svo að ég hefji nú ræðu mína, virðulegi forseti — í inngangi stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir, með leyfi forseta:

„Stefna þarf að stöðugleika til lengri tíma og auka gagnsæi í athafnalífi og allri stjórnsýslu til að efla traust almennings á rekstri fyrirtækja, fjármálalífi, stjórnmálum og stofnunum samfélagsins. Frá efnahagshruninu hefur náðst margvíslegur árangur en enn skortir á þá félagslegu sátt sem þjóðin hefur lengi kallað eftir. Að henni þarf að vinna. Um leið þarf að bregðast við örum þjóðfélagsbreytingum og breyttri sýn á samfélagið á ótal sviðum en líka ójöfnuði og umróti á heimsvísu.

Undir kafla um eflingu þingsins segir:

„Sátt þarf að ríkja um fyrirkomulag fjármálakerfisins til framtíðar. Hvítbók um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið á Íslandi verður lögð fyrir Alþingi til umfjöllunar áður en stefnumarkandi ákvarðanir verða teknar um fjármálakerfið.“

Virðulegur forseti. Það má benda á orðalagið „áður en stefnumarkandi ákvarðanir verða teknar um fjármálakerfið“. Við ræðum hér í kvöld fyrirhugaða sölu á hluta Íslandsbanka sem er í ríkiseigu vegna þess að hann lenti í kjöltu ríkisins í kjölfar síðasta hruns. Síðasta ár hefur verið áfall fyrir þjóðina sem og fyrir heimsbyggðina alla. Heimsfaraldur hefur dembt sér yfir okkur og til að mynda þurrkað upp stærsta atvinnuveg þjóðarinnar á svipstundu. Óvissan hefur verið alger. Atvinnuleysið er í sögulegum hæðum og er óhætt að segja að við séum enn stödd úti í miðri á. Atburðir síðasta árs hafa óneitanlega valdið þjóðinni kvíða og áhyggjum yfir framtíðinni. Sú óvissa og þær áhyggjur hanga enn eins og mara yfir okkur og jafnvel þegar heimsfaraldri lýkur er ljóst að margir verða í sárum. Covid-19 faraldurinn kemur til með að skilja eftir sig sviðna jörð.

Af þessum ástæðum er augljóst að íslenska þjóðin þarf ekki á þessari stundu á fleiri áföllum að halda. Það er því ekkert óeðlilegt og ekkert undarlegt og ekkert skrýtið við það að menn spyrji spurninga um það mál sem við ræðum hér í kvöld. Það er ekkert óeðlilegt að fólki sé brugðið vegna þess að jafnvel þó að áætlanir um að losa eignarhald ríkisins séu skrifaðar í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar þá er það svo að þjóðin hefur verið tilneydd til að vera með hugann við allt aðra hluti síðustu misseri, og eflaust, virðulegi forseti, eru fáir sem eru með ríkisstjórnarsáttmálann á náttborðinu til kvöldlestrar fyrir háttinn. Það ætti því ekki að koma sitjandi stjórn á óvart að menn lyfti brúnum yfir því að þessi umræða sé með þeim fyrstu sem kemur fram eftir mánaðarlangt jólafrí þingsins.

Svo er það bara þannig að það myndast hugrenningatengsl um sölu banka og þá atburðarás sem átti sér nýlega stað í Íslandssögunni. Það er ekkert óeðlilegt að menn séu með böggum hildar þegar kemur að þessari hugmynd um sölu á ríkiseigum. Sporin hræða. Borgunarmálið kemur upp í hugann. Salan á Símanum o.fl., fyrirtæki sem eru seld úr eigu banka sem íslenska ríkið á; fjármálagjörningar sem fóru á misjafna vegu. Staðan er sú að traustið er brotið. Áföll hafa dunið yfir í efnahagskerfinu og afleiðingar þeirra áfalla hafa hreint út sagt verið hrikalegar fyrir marga einstaklinga og fjölskyldur í landinu. Það er því ofureðlilegt að spurt sé. Hvað hefur breyst í millitíðinni? Það er ofureðlilegt að spurt sé: Hefur það verið tekið saman hvað hefur breyst? Getum við hreinlega fengið að sjá hvers vegna staðan er önnur en hún var fyrir meira en áratug? Hvers vegna er öruggara fyrir þjóðina að ráðist sé í þetta núna en þá? Hvað hefur breyst, hvað er búið að laga?

Stjórnarliðar hafa komið upp í kvöld og sagt að búið sé að girða fyrir þá hluti sem urðu til þess að svo djúpt og alvarlegt áfall gat átt sér stað eins og raun bar vitni í fjármálahruninu. Það er talað um hvítbókina en það er eðlilegt að spyrja í ljósi stöðunnar, í ljósi kórónukreppunnar sem nú er skollin á, hvort mögulega séu forsendur þær sem hvítbókin byggir á að einhverju leyti brostnar. Það er eðlilegt að spyrja þeirrar spurningar. Það sama á við um hvítbókina og stjórnarsáttmálann, eflaust eru fáir með hana á náttborðinu.

Virðulegi forseti. Gefum okkur það að umfangsmikið eignarhald ríkisins á fjármálafyrirtækjum sé ekki af hinu góða. Gefum okkur það að stefna um að losa eignarhald á einhvern hátt sé skynsamleg nálgun og ábyrg. Þá hlýtur það líka að velta á fleiri þáttum en þeim einum að ríkisrekstur fjármálafyrirtækja sé ekki góð hugmynd að ákveðið er að selja. Það gefur augaleið að það sem tekur við, það fyrirkomulag, hlýtur að þurfa að vera betra en það fyrirkomulag að ríkið reki til að mynda Íslandsbanka áfram að öllu leyti. Það hlýtur að vera jafn mikilvægt að hluturinn sem um ræðir fari til aðila sem er betur til þess fallinn en ríkið að fara með hann. Það getur ekki verið alveg sama hvert hluturinn fer. Þessa umræðu þarf að taka.

Hér hafa nokkrir stjórnarliðar talað um hugmyndafræði og pólitík í þessum efnum og gert öðrum upp skoðanir; nefnt að menn búi yfir pólitískum prinsippum sem verði ekki haggað og því sé það svo að menn standi hér og véli um að þetta sé ekki góð hugmynd eða spyrji spurninga um hvort nú í miðri kreppu, í miðjum heimsfaraldri, sé rétti tíminn til að selja þennan hlut; geri mönnum upp þær skoðanir að það gildi einu hverjar ytri aðstæður séu, þetta séu skoðanir þessa fólks og ekkert yrði við því haggað. En í raun og sann hafa menn komið hingað upp og kallað eftir upplýsingum, kallað eftir svörum, kallað eftir forsendum þess að nú í miðri kreppu, í miðjum heimsfaraldri, sé góður tími til að selja eign ríkisins í Íslandsbanka. Á meðan stjórnarliðar setja þetta fram, að menn séu að reyna að gera eitthvað tortryggilegt með því að spyrja, með því að vinna vinnuna sína, spyrja spurninga, þeir sem eru hér í forsvari fyrir almenning, þá er ekkert skrýtið að samtalið komist ekkert sérstaklega langt. Þessi viðbrögð við umræðunni og orðum manna gefa til kynna að meiri hlutinn sé e.t.v. ekki að stunda mjög virka hlustun því að margir sem hafa talað í kvöld og í dag, m.a. þingmenn Pírata, hafa beinlínis sagt berum orðum að þeir líti ekkert endilega á það sem góða hugmynd að ríkið eigi fullt af bönkum en kalli aftur á móti eftir upplýsingum.

Forseti. Ég gæti talað hér mun lengur og langar til en tíminn er á þrotum og mig langar að benda ríkisstjórninni á að það hefur gengið vel í Covid-faraldrinum. Samtalið við þjóðina hefur gengið vel. Hvers vegna? Vegna þess að samtalið við þjóðina og þingið hefur að mestu leyti verið opið og heiðarlegt. Hvers vegna er það ekki líka svo þegar kemur að fjármálakerfi þjóðarinnar? Kemur það þjóðinni eitthvað minna við eða þinginu? Nei.