151. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2021.

Neytendastofa o.fl.

344. mál
[15:40]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið og þær spurningar sem hann varpar hér fram. Það er alveg rétt að umræða um neytendamál almennt, hvort sem er á hinu pólitíska sviði eða úti í samfélaginu, er minni hér en víða annars staðar. Neytendasamtökin eru að mínu viti orðin öflug samtök með marga félagsmenn. Ef við lítum til þess hvernig þau fjármagna sig er það hlutfall fjármagns miklu hærra hér sem kemur með greiðslu félagsmanna en það sem þau fá frá stjórnvöldum.

Mér finnst skipta mjög miklu máli að Neytendasamtökin séu öflug. Fyrir jól gerði ég nýjan samning við Neytendasamtökin og efldi þau enn frekar. Þetta eru grasrótarsamtök sem geta haft töluverð áhrif á almenna umræðu um þessi mál og farið í einstaka prófmál sem geta haft áhrif, ýmist hvað varðar lagasetningu eða framkvæmd úti í samfélaginu. Neytendamál eru, eins og ég nefndi í ræðu minni, mjög víða í stjórnkerfinu og ég held að það væri ógerningur að hafa þau öll á einum stað.

Aðdragandinn að frumvarpinu er sá að við höfum verið að skoða stofnanastrúktúrinn, hvar verkefnin eru í dag og hvar þau verkefni, sem í dag eru hjá Neytendastofu, ættu helst að vera. Ég hef á tíma mínum í ráðuneytinu lagt fram nokkur frumvörp sem bæta að mínu viti umhverfi og stjórnskipulag neytendamála, einfalda mál, og er málið á eftir líka dæmi um það. En ég tek undir með hv. þingmanni að það skiptir máli í frjálsu markaðshagkerfi að neytendur geti sýnt aðhald. Regluverkið þarf að vera skilvirkt og skýrt og gagnsætt og þessi frjálsu félagasamtök hafa þar lykilhlutverki að gegna. Mér finnst Neytendasamtökin sinna því vel og hafa metnað til þess að gera betur.