151. löggjafarþing — 47. fundur,  21. jan. 2021.

samningar um bóluefni.

[10:47]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég tel nauðsynlegt þegar við ræðum um öflun bóluefna fyrir Ísland að setja sig í þau spor sem við vorum í á þeim tíma þegar sú umræða hófst. Við erum sem sagt að tala um fyrri hluta síðasta árs eða um mitt síðasta ár þar sem gríðarleg óvissa var uppi um hvenær bóluefni yrði til, hverjum tækist að framleiða og hvort við gætum yfir höfuð haft væntingar um að það yrði stóra lausnin fyrir okkur. Þarna greindi marga sérfræðinga á, en það hefur ræst gríðarlega vel úr þessu. Á þeim tíma sem við ákváðum að njóta góðs af samstarfi við aðrar Evrópuþjóðir var ljóst að lyfjaframleiðendur voru að sjálfsögðu að sækjast eftir því að hafa öryggi um að geta selt efnið, sem miklu var kostað til á þeim tíma að finna upp og framleiða. Ég tel að það hljóti að hafa flýtt fyrir rannsóknum, þróun og á endanum framleiðslu bóluefna að hafa haft slíka samninga.

Í raun og veru stöndum við frammi fyrir spurningunni um það hvort það hefði hreinlega verið ábyrgt af íslenskum stjórnvöldum að fella sig ekki við það samkomulag sem þarna var undirliggjandi, að þetta væri dálítið allir fyrir einn og einn fyrir alla, og ef menn vildu freista gæfunnar einir og sér gagnvart hverjum og einum þeim framleiðanda sem Evrópusambandið var í samtali við, þá myndu þeir ekki geta notið góðs af heildarsamningi Evrópusambandsins við þá hina sömu. Það hefði verið mjög djörf ákvörðun. Hún hefði t.d. getað leitt til þess að við hefðum náð samningi við einhvern einn þeirra sem hefði síðan ekki verið sá (Forseti hringir.) sem var fyrstur á markað með lyfið. Ég held að það sé mjög mikilvægt að við skoðum þetta í því samhengi.