151. löggjafarþing — 47. fundur,  21. jan. 2021.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

370. mál
[15:05]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Þingmaðurinn spyr um gæðastimpil hjá verkefnisstjórn 3. áfanga og þá væntanlega faghópum. Ég vil fyrst segja að ég held að mjög margt hafi lærst og áunnist í meðförum verkefnisstjórnar 3. áfanga rammaáætlunar, ekki síst var lagður grunnur að ákveðinni vinnu sem snýr að félagslegum og hagrænum þáttum, og að vinnan við matið á verndargildi kostanna, samspili ferðaþjónustu og annarrar nýtingar hafi náð að þróast og eflast mjög vel.

Sjálfsagt má gagnrýna ýmislegt í málsmeðferðinni. Hv. þingmaður nefnir hér stuttan tíma sem fyrri ráðherra hafi tekið sér í að fara yfir áætlunina. En ég held að hv. þingmaður, sem hefur starfað í ráðuneyti og meira að segja í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, sé alveg fullmeðvitaður um að hægt er að fara yfir vinnu eins og þessa áður en hún kemur inn í ráðuneytið, af því að allt er þetta nú opið almenningi. Þannig að ég geri bara ráð fyrir því, þó svo að ég hafi ekki spurt eftir því, að það hafi verið gert í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu. Ég held að verkefnisstjórn 3. áfanga hafi unnið mjög gott starf. Við getum verið sammála eða ósammála um einstaka virkjunarhugmyndir og hvar þær lenda í þeirri röðun sem verður á endanum. Margar ástæður geta fyrir því hvers vegna við teljum að eitthvað eigi ekki að fara í vernd eða eitthvað eigi ekki að fara í nýtingu. En ég held að verkefnisstjórnin hafi unnið þetta eins vel og kostur var á.