151. löggjafarþing — 48. fundur,  26. jan. 2021.

öflun og dreifing bóluefnis, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[15:11]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Varðandi fyrri fyrirspurn hv. þingmanns og síðan viðbótina sem kom í síðari spurningu þá eru auðvitað allar forsendur til þess að við ferðumst innan lands í sumar. Það lítur allt út fyrir að við þurfum að vera áfram um sinn, a.m.k., með harðar aðgerðir á landamærum. Við höfum auðvitað hér í gegnum þingið afgreitt margháttaðar efnahagsaðgerðir, sérstaklega í þágu þeirra atvinnugreina sem hafa orðið verst úti.

Varðandi samskiptin við einstaka bóluefnaframleiðendur þá gerum við ráð fyrir því að tafirnar verði unnar upp, eins og ég kom inn á áður. Það er engin hætta á því að Ísland verði eftir úti í kuldanum. Ég get bara fullyrt það. Við höfum ekki heimild til þess að semja fram hjá þeim samningum sem við erum í núna. Það er að mínu mati útilokað að það myndi bera árangur að fara bara sjálf að semja núna fram hjá þeirri stöðu. (Forseti hringir.) Það að segja núna eftir á að eitthvað hefði verið skynsamlegra einhvern tímann áður er náttúrlega einfaldasti hlutur í heimi. Það getur hver sem er gert. En ég er sannfærð um að þessi ákvörðun var rétt.