151. löggjafarþing — 48. fundur,  26. jan. 2021.

öflun og dreifing bóluefnis, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[15:43]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Í fyrsta lagi, af því að hv. þingmaður er að velta fyrir sér stöðunni á landamærum, það hefur verið rætt að hún verði endurskoðuð 1. maí, þá er það auðvitað með öllum fyrirvörum um að við höfum náð betri tökum á faraldrinum heldur en nú er. Það er ákveðið litakóðunarkerfi sem er fyrir hendi og byggir á tilteknum mælikvörðum og þá værum við að gera ráð fyrir því að lönd sem væru orðin græn væru í annarri stöðu en þau sem væru rauð á þeim tímapunkti. Ísland er til að mynda á grænu akkúrat núna, okkar samfélag. Ég er sammála því sem hv. þingmaður segir að við eigum að ferðast innan lands og við verðum aldrei hvert um sig búin að klára að sjá allt það sem okkar stórkostlega land hefur upp á að bjóða. Og af því að hv. þingmaður er að tala um Kárahnjúkasvæðið þá er það því miður þannig að ekki er hægt að sjá svæðið við Jökulsá, sem við mörg hver sáum, en er núna búið að sökkva.