151. löggjafarþing — 48. fundur,  26. jan. 2021.

vextir og verðtrygging.

441. mál
[17:20]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Já, þetta er góð átt sem hv. þingmaður fer í. Hann fer nánast út í það að velta fyrir sér veikleikum í stofnanakerfinu okkar. Í lok dags er þetta spurningin: Ef við ætlum að mæla þessar hagstærðir rétt þá þurfum við að hafa stofnanir sem geta mælt þær rétt. Ég veit að fólk á Hagstofunni gerir sitt allra besta en reyndin er samt sem áður sú að þetta er í praxís reiknað á þann hátt að tölur eru færðar inn í excel-skjal og svo er ýtt á tiltekinn takka og það kemur út tiltekin niðurstaða. Það eru ekki nema nokkur ár síðan að gerð voru stór mistök. Það gleymdist að velja einhverja reiti sem gerði það að verkum að mælingin var röng í nokkra mánuði. Maður veltir því fyrir sér núna, þegar flestar greiðslur eiga sér stað í gegnum posa, þegar flest er rafrænt, hvers vegna við getum ekki gert aðeins betur. Án þess að ég áfellist Hagstofuna, þau hafa náttúrlega bara sína stofnanaumgjörð og geta ekki gert neitt meira en það sem við segjum með lögum að megi gera, en er ekki orðið tímabært að við förum að taka aðeins tillit til þess hvað við þurfum mikið af góðum gögnum í hagkerfinu til að hagstærðirnar séu réttar og eflum þá Hagstofuna og þessar stofnanir? Það eru fleiri stofnanir. Vísitala neysluverðs er náttúrlega stóri hlekkurinn í verðtryggðum lánum en það er ekki eini staðurinn þar sem vísitala neysluverðs er notuð. Hún er notuð víða til þess að uppfæra laun, notuð víða til að reikna út alls konar aðrar stærðir og afleiðurnar sem eiga sér stað í hagkerfinu út af þessari einu stærð, sem er alltaf reiknuð vitlaust, hljóta að hafa einhverja dómínóverkun í hagkerfinu í heild sinni.