151. löggjafarþing — 48. fundur,  26. jan. 2021.

sveitarstjórnarlög og tekjustofnar sveitarfélaga .

378. mál
[18:46]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Ég er mjög hlynntur sjálfbærni og sjálfsstjórn. Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra um sjálfsstjórn sveitarfélaga. Mér finnst það alla vega mjög skýrt, ef ég fer í gegnum Evrópusáttmálann um sjálfsstjórn sveitarfélaga, sem við tókum upp 1991, og lög um sveitarstjórnarmál og stjórnarskrána, að ekki sé hægt að afnema sveitarfélag nema með kosningu íbúa, samkvæmt íslenskum lögum. Samkvæmt þessu frumvarpi, ef það verður að lögum, getur ráðherra sagt: Nú eru allir frestir búnir, þið sameinist. Ef íbúar kalla til íbúakosninga samkvæmt sveitarstjórnarlögum og segja þar nei, þá segir ráðherra í framsöguræðu sinni að ráðherra beri að taka tillit til íbúa þrátt fyrir að í greinargerðinni segi líka að sáttmálinn geri ekki ráð fyrir að stjórnvöldum aðildarríkja hans beri skylda til að taka til greina óskir sveitarfélaga við sameiningu þeirra við önnur sveitarfélög. Það er ákveðið misræmi þarna á milli og ég bendi á það grundvallaratriði að ef við ætlum að halda í sjálfsstjórn sveitarfélaga og ef hún á að þýða eitthvað þá getur ráðherra annars stjórnsýslustigs ekki afnumið lögaðila úr jöfnunni á öðru stjórnsýslustigi samkvæmt íslenskum sveitarstjórnarlögum. Það gengur einfaldlega gegn sjálfsstjórnarhugtakinu.