151. löggjafarþing — 48. fundur,  26. jan. 2021.

millilandaflug um Hornafjarðarflugvöll.

115. mál
[21:35]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætlaði að sleppa síðara andsvari vegna þess að ég taldi þetta búið, en það var eitt atriði sem hv. þingmaður skautaði næstum því inni í og mér finnst það svo áhugavert að ég get ekki stillt mig um að minnast á það. Ísland er eitt af fáum Evrópuríkjum sem taka ekki þátt í geimvísindasamstarfi Evrópu. Þarna er að lokast ákveðið tækifæri fyrir okkur til að nýta gervihnattaleiðréttingartækni sem gæti hjálpað okkur á ótalmarga vegu í flugsamgöngum á Íslandi, t.d. fyrir Landhelgisgæsluna, en ekki síður almennings- og áætlunarflug og annað. Það tengist því hreinlega. Ef við værum þátttakendur í geimvísindasamstarfi Evrópu, þ.e. við Geimvísindastofnun Evrópu, væri möguleiki fyrir okkur að setja upp leiðréttingarstöðvar á Íslandi sem myndi gera það að verkum að þessi flug gætu lent mjög nákvæmlega, jafnvel í engu skyggni. Þetta er dæmi sem hefur m.a. komið upp í Vestmannaeyjum þar sem þyrla Landhelgisgæslunnar hefur þurft að lenda uppi á Hamrinum frekar en á flugvellinum vegna þoku. Hér hefur verið lagt til að fara út í dýrar aðgerðir eins og að byggja þyrlupall. En það er nú þegar töluvert mikill hluti af yfirborði Heimaeyjar sem fer undir flugmannvirki og kannski er óþarfi að fara út í að byggja þyrlupall þar að auki ef við gætum gert miklu einfaldari hluti eins og að ganga í Evrópusamstarf um geimvísindarannsóknir og fengið í kaupbæti nákvæmar leiðréttingar á upplýsingum um gervihnattastaðsetningar þannig að hægt sé að nota flugbrautirnar jafnvel í þoku. Ég held að þetta sé góður díll. Ég vona að hv. þingmaður sé mér sammála.