151. löggjafarþing — 49. fundur,  27. jan. 2021.

samvinnufélög o.fl.

56. mál
[17:18]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Forseti. Eins og ég hef sagt sjálfur: Ef ég væri í stjórn fyrirtækis myndi ég ekki vilja hafa alla eins þar. Ég hef verulegan áhuga á að vera í kringum fólk sem er jafnvel bara ólíkt mér. Það gæti verið æskilegt að hafa t.d. konu í þeirri stjórn af því ég er ekki kona. En mér myndi aldrei detta í hug að styðja refsingar til að þvinga einhvern í þessa veru. Ég held að svona hlutir gerist meira og minna af sjálfu sér eftir því hverjir það eru sem taka áhættu í atvinnulífinu. Oftast er það þannig að þessi fyrirtæki eru eign nokkurra aðila sem vilja sjálfir stjórna því. Það er mikilvægt að við leyfum því að gerast og hvetjum aðra til að taka þátt í atvinnulífi og fjárfesta, einstaklinga af báðum kynjum, þá gerist þetta af sjálfu sér.