151. löggjafarþing — 49. fundur,  27. jan. 2021.

samvinnufélög o.fl.

56. mál
[17:19]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Hún var athyglisverð eins og hans var von og vísa og merkilegt að heyra hana í ljósi þess að flokkssystir hans hefur talað mjög fyrir þessu máli. Það er greinilega mikill ágreiningur innan Sjálfstæðisflokksins um þetta mál. Það er fegurð í frelsinu, sagði hv. þingmaður, og það má allt í dag, eins og hann nefndi réttilega. Það er ýmislegt sem hefur verið gert í þessum sal í nafni jafnréttis og sjálfsákvörðunarréttar, þar á meðal að heimila að deyða börn í móðurkviði sem eru tæplega 22 vikna gömul og hafa náð fullum þroska og geta lifað utan móðurkviðar. Andstæðingar hins svokallaða kynjakvóta hafa bent á að kyn ætti ekki að skipta máli og kvótar muni aðeins leiða til meiri fordóma í garð kvenna og lög um kynjakvóta í stjórnum fyrirtækja muni skaða tilraun þeirra til að ná fram jafnrétti.

Margt athyglisvert sem hv. þingmaður sagði í sinni ræðu en mig langaði að spyrja hann að því sérstaklega hvaða afleiðingar hann telur að frumvarpið muni hafa verði það að lögum. Hv. þingmaður nefndi sérstaklega fyrirtækin, að það ætti að fara að sekta fyrirtæki sem væru nú þegar að berjast í bökkum og það er mjög athyglisvert sjónarmið og á fullkomlega rétt á sér. Einmitt þegar við þurfum að styðja við bakið á fyrirtækjunum þá á að fara að sekta þau. En hvaða áhrif telur hv. þingmaður að þetta hafi gagnvart konum verði þetta að lögum? (Forseti hringir.) Er hætta á því að konur verði fyrir fordómum og með þessu máli sé í raun og veru verið að skaða (Forseti hringir.) tilraun þeirra til þess að ná fram jafnrétti?