151. löggjafarþing — 50. fundur,  28. jan. 2021.

hreinsunarstarf á Seyðisfirði.

[11:04]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Það að eyða óvissu er eitthvað sem ríkisstjórnin getur gert, eitthvað sem Alþingi getur gert. Ef spurningin er enn þá hvort óhætt sé að búa á ákveðnum svæðum á Seyðisfirði þá getum við svarað því hvað gerist ef svo er ekki. Það veitir fólki ró að vita a.m.k. að ef það er ekki öruggt heima hjá sér þá verði brugðist við því. Þá þurfum við ekki að leggjast í óþarfa stress í framhaldinu. Það eru svona einfaldar spurningar sem við þurfum að svara betur. Þetta á ekki bara við um áfallið á Seyðisfirði. Þetta á líka við um faraldurinn. Þar er sama spurning til staðar: Hvað gerist næst? Svörin mættu einfaldlega vera meiri.