151. löggjafarþing — 50. fundur,  28. jan. 2021.

samvinnufélög o.fl.

56. mál
[12:28]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka þingmanni fyrir andsvarið. Ég vil segja örstutt að mikilvægt er að eiga þessa umræðu um einmitt Twitter og slíkt. Ég veit ekki alveg hvað er þar en við þurfum að taka þessa umræðu, það er alveg klárt, því að þetta er mjög alvarlegt mál alveg sama um hvern er að ræða.

En varðandi málið sem er hér til umræðu. Hv. þingmaður segir að lögin hafi ekki virkað, ég er ekki endilega sammála honum. Þetta hefur lagast en mönnum finnst að það hafi lagast of hægt og of lítið. Þá spyr maður: Er hægt að beita þessari meðalhófshugsun þegar hlutirnir hafa farið af stað, hafa gengið, sumir segja þokkalega, það er tilfinning manna að það hafi gengið þokkalega, aðrir segja að það gangi ekki neitt, en er hægt að heimfæra þetta á það? Ég held að þetta snúist kannski meira — eða ekki meira en við þurfum að velta því fyrir okkur, herra forseti — um rétt einstaklinganna og hvort þarna sé um að ræða slíkt meðalhóf, því að menn greinir á um hvort þetta hafi gengið eða ekki og hvort það hafi gengið nógu hratt eða of hægt og allt það, versus það að verið sé að seilast inn í rétt manna til að stýra og ráða framtíð sinni, hlutum og eignum sjálfir. Ég held alla vega að verið sé að ganga of langt varðandi það, aðrir geta verið á annarri skoðun. Ég held nefnilega að þegar kemur að meðalhófinu, að mínu viti alla vega, ég er náttúrlega ekki lögfræðingur og það á eftir að fjalla meira um þetta í nefndinni að sjálfsögðu, þurfi að færa frekari sönnur fyrir því að það sé meðalhóf, vegna þess að hlutirnir hafa þokast, við skulum bara nota það orð, en það er alveg örugglega hægt að vera sammála um að þeir hefðu getað þokast hraðar áfram.