151. löggjafarþing — 50. fundur,  28. jan. 2021.

sóttvarnalög.

329. mál
[15:29]
Horfa

Frsm. velfn. (Ólafur Þór Gunnarsson) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Honum varð nokkuð tíðrætt um þá atburðarás sem verður til þess að þessi veirupest kemur inn í landið og hvernig hefði verið mögulega hægt að taka á því og það allt. Jú, það kann að vera alveg rétt hjá þingmanninum að það getur verið gagnlegt á einhverjum tímapunkti að líta til baka og horfa um öxl og segja: Þetta hefði kannski verið betur gert svona. En þá er mikilvægt að menn skoði það í því samhengi sem hefur m.a. verið rætt að sóttvarnayfirvöld hafa ítrekað sagt í þessum faraldri að það væri í rauninni ekki hægt að koma á ástandi þar sem við værum með „veirufrítt“ land. Aukinheldur eru ferðamenn í skilningi laganna bæði innlendir, íbúar Íslands sem koma til Íslands eftir ferðalög erlendis, og svo í hefðbundnum skilningi ferðamenn sem koma hingað til að heimsækja landið og eru í stuttan tíma. Ég sé ekki alveg hvernig hefði verið hægt með einhverju móti að stöðva þá eða hindra í að fara inn í landið með einhverri lokun á landinu. Það hefði aldrei getað gengið, það er náttúrlega mjög snúið. Mig langar að spyrja þingmanninn í ljósi almennra laga og í ljósi alþjóðasamninga sem við erum aðilar að: Telur þingmaðurinn að það hefði verið hægt að loka landinu að öllu leyti eins og hann nefnir? Mér sýnist að það geti verið býsna erfitt í ljósi þess að við getum ekki stoppað fólk sem hér býr og vinnur og er ríkisborgarar og hindrað það í að koma inn í landið.