151. löggjafarþing — 51. fundur,  2. feb. 2021.

skerðingar.

[14:26]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Svo að ég snúi mér bara beint að spurningunni: Nú verð ég að segja að það kemur mér talsvert á óvart að sjá þessa tillögu koma frá ASÍ. Ef við horfum á hóp þeirra sem sæta skerðingum vegna tekna í almannatryggingakerfinu vill ASÍ leggja upp með þá stefnu að við skilum mestu til þeirra úr þessum hópi sem hafa það best. Með afnámi skerðinga koma flestar krónur til þeirra sem hafa það best af þeim sem yfir höfuð sæta skerðingum, alveg augljóst. Þeir skerðast minnst sem hafa minnst. Þannig virkar kerfið í dag. Ef þú afnemur allar skerðingarnar eru það þeir sem búa við minnstar skerðingar sem eru neðst í stiganum. Þetta kemur á óvart vegna þess að þetta er algerlega andstætt allri annarri hugmyndafræði sem hefur stafað frá ASÍ, t.d. í skattamálum, og við höfum á þessu kjörtímabili einmitt lagt áherslu á að við skattalækkanir þá skiluðum við mestu þar sem þörfin væri mest.

Að öðru leyti verð ég að segja að maður er alltaf knúinn til að koma upp í þessari umræðu og minna á nokkrar grundvallarstaðreyndir um ráðstöfunartekjur heimilanna í landinu. Á Íslandi eru meðaltekjur meðal þess hæsta sem þekkist hvort sem litið er til Norðurlandanna eða OECD-ríkjanna. Á sama tíma er jöfnuður hvað mestur og stuðningskerfin fyrir fjölskyldur eru, samkvæmt skýrslu Axels Halls, á pari eða betri fyrir fjölskyldufólk en á Norðurlöndunum þannig að það er nánast sama í hvaða átt litið er. Við stöndum okkur afburðavel í því að skipta því sem er til skiptanna í þjóðfélagi okkar með sanngjörnum hætti meðal íbúa landsins.