151. löggjafarþing — 51. fundur,  2. feb. 2021.

þingsköp Alþingis og réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

468. mál
[18:28]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að skjóta mér örstutt inn í þessa þörfu, góðu og löngu tímabæru umræðu og þakka fyrir framlagningu þessa frumvarps sem gefur okkur tilefni til að fjalla um hefðir og menningu og verklag okkar í þinginu. Þetta er auðvitað eitthvað sem rætt hefur verið á vettvangi allra þingflokka oftar en einu sinni og oftar en tvisvar eins og við þekkjum og það er auðvitað af virðingu fyrir Alþingi og stöðu þess og mikilvægi í samfélaginu sem við veltum þessu upp. Við tölum oft um að þetta sé hin æðsta málstofa landsins og orðið sé hvergi heilagra en einmitt hér í þessum ræðustól og menn þurfi að geta tjáð sig með tæmandi hætti.

Ég á ekki langa sögu í þinginu en ég get ekki sagt að þetta fyrirkomulag hafi komið mér á óvart. Þetta er auðvitað eitt af þeim hugðarefnum sem ég vil gjarnan sjá þróast og breytast í störfum þingsins, að við komumst lengra varðandi þessar hefðir, hvernig við högum umræðunni. Ég flutti einhvern tíma örstutta ræðu snemma eftir að ég kom til þings um að það væri ekki mikil skilvirkni í störfum þingsins. Skilaboðin sem ég fékk voru þau að það jaðri við guðlast að nota hugtakið skilvirkni í störfum þingsins því að menn eigi ekki að nota orðfæri af því tagi í ræðustól Alþingis eða í störfum þingsins, þetta séu svo mikilvæg verkefni sem þurfi svo mikla umfjöllun að menn megi ekki nota þetta hugtak.

Líklega hafa fulltrúar flestra þingflokka tjáð sig í þessari umræðu. Það er bara ánægjulegt og við erum í rauninni sammála um að hér megi miklu breyta og hér þurfi einhverju að breyta. Það er einstakt meðal þjóðþinga í hinum vestræna heimi að haga málum með þessum hætti. Ég held að ekkert þing hagi umræðunni með þessum hætti. Ef maður ræðir tilhögun þingumræðu við grænlenska þingmenn, á því litla þingi, hvá þeir þegar þeir heyra hvernig við högum þessu. Ekkert mál fer út úr þingnefnd á Grænlandi án þess að samið hafi verið um það hvað það taki nokkurn veginn langan tíma í umræðu, að menn séu búnir að taka utan um það. Það getum við gert líka og það ættum við að gera og reyna að skapa vettvang til þess að fjalla um þetta efni. Ég held að tíminn núna sé hinn rétti.

En hvað þarf til? Það þarf auðvitað traust. Það þarf að skapa traust milli aðila um að þetta sé eitthvað sem við séum að meina og við þekkjum það að minni hlutinn færir rök fyrir því að þetta sé eina verkfærið sem hann hafi gegn harðsnúnum meiri hluta sem vill keyra mál í gegn. Að keyra mál í gegn, hvað þýðir það? Það þýðir að meiri hlutinn vilji nýta sér stöðu sína til að fá mál afgreidd frá þinginu. En er það ekki líka hið lýðræðislega rétta að meiri hlutinn fái að ráða málum og koma stefnu sinni fram? Minni hlutinn segir aftur á móti að þá sé valtað yfir hann og hann komi ekki málum sínum á dagskrá einu sinni, ágæt mál fái ekki umræðu. Við þurfum að komast örlítið úr sporunum hvað þetta varðar.

Auðvitað má segja að svokallað málþóf geti verið uppbyggilegt að vissu marki og dýpki umræðu um ýmis mál og að þegar menn fara að fjalla um mál ítarlega vakni spurningar tengdar eða ótengdar umræðunni og á endanum séu mál afgreidd með vandaðri hætti en ella. En við þekkjum að málþóf hefur tekið á sig óskaplegar myndir og þurfum ekki að leita langt aftur í tímann. Ég held að síðasta vor hafi verið masað hér sólarhringum saman og þetta skiptir máli. Þetta skiptir máli fyrir alla starfsmenn þingsins og alla innviði löggjafarsamkomunnar. Það reynir á alla innviði og ég tala nú ekki um kostnað sem þessu fylgir, sem við þurfum auðvitað ekkert að horfa í og eigum ekkert að vera að horfa í allt of mikið ef umræðan er innihaldsrík. Að öðrum kosti er maður dálítið miður sín þegar umræðan skilar kannski giska litlu.

Ég vil ekki orðlengja þetta frekar en það væri mikið fagnaðarefni ef okkur tækist að skapa hér vettvang til að ræða þetta og leita eftir því að skapa traust. Við getum gert það til reynslu, breytt fyrirkomulagi, en við þurfum að fella það í skorður. Við verðum að komast að samkomulagi um það hvað minni hlutinn getur talið ásættanlegt til að sanngirni verði gætt. Eins og hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson kom inn á er það kannski meiri hlutinn sem ætti að koma til móts við minni hlutann og bjóða einhver kjör í þessu efni.

Virðulegur forseti. Ég þakka þessa umræðu og á þá ósk heitasta að okkur miði örlítið í áttina í þessum efnum.