151. löggjafarþing — 53. fundur,  4. feb. 2021.

samskipti Íslands og Bandaríkjanna eftir valdaskiptin 20. janúar sl.

[13:59]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Ég vil líkt og aðrir ræðumenn byrja á að þakka fyrir þessa umræðu, þó að einhver kynni að halda að hún væri varla tímabær þar sem forsetaskiptin eru rétt nýafstaðin, og ef ég tók rétt eftir er Joe Biden að halda sína fyrstu ræðu um utanríkismál sennilega á nákvæmlega þessum tíma og við erum að spjalla um þetta mál. Engu að síður er mjög mikilvægt að velta því fyrir sér hvort eitthvað breytist og hvað breytist við þessi valdaskipti. Stjórnartíð Trumps, fyrrverandi forseta Bandaríkjanna, var mörgum mikil vonbrigði. Margt af því sem hann gerði og sagði og stóð fyrir var þess eðlis að álit margra, þar á meðal mín, á því hvernig Bandaríkjamenn höguðu sínum málum beið hnekki. Ég varð fyrir miklum vonbrigðum. Að sama skapi er maður bjartsýnn á að nýr forseti Bandaríkjanna muni snúa af þeirri braut sem Trump lagði og ákvað að fara og kallaði America First, með leyfi forseta.

Hins vegar eigum við svo sem alveg eftir að sjá í hvaða atriðum Biden hyggst beita sér í stjórnartíð sinni, þó að við höfum sem betur fer mörg jákvæð teikn á lofti um það, sérstaklega að hann ætli sér greinilega að taka virkari og betri þátt í alþjóðlegu samstarfi, og hafa hér verið nefnd ágæt dæmi um það af fyrri ræðumönnum. Ég held að við eigum að leggja allt kapp á að styrkja samband okkar við Bandaríkin. En ég held líka að við eigum að vera með opin augu fyrir því að það verða ekki ný Bandaríki á alþjóðlegum vettvangi sem spretta fram nú á næstu mánuðum.