151. löggjafarþing — 53. fundur,  4. feb. 2021.

umræður um utanríkismál.

[14:35]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég vil bara segja, vegna umræðna sem urðu um ræðutímann um þessa skýrslu, að menn verða að hafa í huga í hvaða samhengi þeir hlutir eru. Það var löngu búið að setja inn á starfsáætlun að hér yrðu ræddar skýrslur alþjóðanefnda. Svo var fallist á í viðbót að taka inn eina sérstaka umræðu á sviði utanríkismála og til þess að þetta yrði ekki allt hvað á annars kostnað var ekki um annað að ræða en að semja um afmarkaðan og frekar stuttan ræðutíma varðandi þessa sérstöku skýrslu. Það er sjálfsagt mál að taka hana til umræðu og var tekið vel í óskir um að hún yrði rædd hér. En þetta er ekki skýrsla að beiðni Alþingis eða reglubundin skýrslugjöf samkvæmt þingsköpum. Hér er sérstök skýrsla sem hæstv. ráðherra hefur látið gera og hafði áhuga á því að hún yrði rædd á þingi og það var tekið vel í það. En það var ekki endilega þar með lofað að sú umræða stæði í heilan eða hálfan dag. Það er nefnilega þannig, herra forseti, að tími, þar með talinn ræðutími, er takmörkuð auðlind. Okkur er skammtaður tími til þingstarfa. Það bíða allmargar beiðnir um sérstakar umræður. (Forseti hringir.) Það er áhugi hjá fleiri ráðherrum á að ræða skýrslur og við þurfum að koma þessu öllu fyrir. Ég bið hv. þingmenn, sem horfa bara á umræðurammann í hverju máli fyrir sig, og finnst hann ekki nógu rúmur, að hafa hið stóra samhengi hlutanna í huga.