151. löggjafarþing — 53. fundur,  4. feb. 2021.

Vestnorræna ráðið 2020.

492. mál
[17:37]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Guðjóni Brjánssyni fyrir að fara yfir skýrslu okkar í Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins. Ég ætla líka að nota tækifærið og þakka Bylgju Árnadóttur fyrir að skrifa þessa ágætu skýrslu fyrir okkur.

Ég á sæti í Vestnorræna ráðinu og hef átt sæti þar frá því að ég tók sæti hér á þingi 2016. Þetta er, eins og hv. þingmaður kom inn á, sérstakt ár út af Covid. Ég verð að viðurkenna að það er ávallt krefjandi að taka þátt í fundum Vestnorræna ráðsins vegna þess að þeir fara allir fram á dönsku og við þingmenn höfum þar af leiðandi þurft að sækja dönskutíma og undirbúa okkur vel og vera með athyglina á fullu til að meðtaka það sem vinir okkar eru að segja, og ég tala nú ekki um þegar kemur að því að tjá sig. Sú sem hér stendur leyfir sér meira að segja stundum að gera það á ensku þegar dönskukunnáttan nær ekki lengra.

Það var einstaklega erfitt að sitja einn heima hjá sér á ársfundi á dönsku í gegnum fjarfundabúnað og varð þess kannski valdandi að fundurinn varð mun styttri en ella. Ég sé hér að forsætisnefnd hefur fundað reglulega með fjarfundabúnaði og í forsætisnefnd á sæti hv. þm. Guðjón S. Brjánsson og svo formenn hinna landsdeildanna. Vegna þess að ég gegndi formennsku árin 2016–2017, og þurfti að sitja allmarga slíka fundi, þá held ég einmitt að þarna væri kannski einn af möguleikunum til að eiga enn meira og nánara samstarf, þ.e. að nota fjarfundatæknina í þessum tilgangi. Það kemur aldrei í staðinn fyrir að fólk hittist og tali saman en þegar það snýr að ákveðnum málum, þegar fólk þekkist fyrir og svona, myndi ég halda að fjarfundir ættu að nýtast vel og sérstaklega ættu þeir að nýtast vel þessum litlu þjóðum því að það er bæði dýrt og oft erfitt að ferðast milli vestnorrænu landanna og þá kannski sérstaklega frá Grænlandi.

Virðulegur forseti. Ég vona að við náum að virkja starfið enn frekar í Vestnorræna ráðinu með því að halda fjarfundi í ákveðnum starfshópum milli ársfundar og þemaráðstefnunnar okkar. Ég sé tækifæri til þess sem við getum vonandi nýtt betur á næstu misserum. Það hefur verið þannig í gegnum tíðina að þetta hefur kannski ekki þótt mikilvægasta alþjóðastarfið af þeim störfum sem þingmenn sinna á alþjóðlegum vettvangi. Ég held að það sé mjög mikill misskilningur. Ég held að það sé ofboðslega mikilvægt að við ræktum samstarf við granna okkar. Við eigum svo margt sameiginlegt og við getum lært svo margt hvert af öðru. Ég er kannski að leggja sérstaka áherslu á að við getum lært margt hvert af öðru. Það má ekki vera þannig að við Íslendingar höldum að við séum svo stór og frábær — út af því að við erum orðin sjálfstæð frá Dönum og hinir vinir okkar stefna að því — og getum ein fært eitthvað fram, sem við vissulega getum, því að við getum líka lært mikið af Færeyingum og Grænlendingum.

Mig langar að leggja sérstaka áherslu á það í umræðunni, af því að ég veit ekki hversu lengi maður hefur tækifæri til að starfa hér á þingi og starfa í Vestnorræna ráðinu, þar sem verið var að ræða alþjóðaviðskipti hér í dag, að það skiptir mjög miklu máli að efla viðskiptatengsl. Við fórum í gegnum það í Vestnorræna ráðinu, Íslendingar og Færeyingar, að takast svolítið á um einn af okkar ítarlegustu fríverslunarsamningum sem er Hoyvíkur-samningurinn milli Íslands og Færeyja. Sitt sýndist hverjum í því. Ég áttaði mig á því, virðulegur forseti, í samtali við færeyska þingmenn, að við hefðum ekki gert nóg af því að ræða um viðskipti milli landanna og mikilvægi þess að þessi lönd ættu í greiðum viðskiptum sín á milli. Það var mjög mikill misskilningur, það var einhver veginn hægt að rugla tölum fram og til baka og Færeyingar, sumir hverjir, áttuðu sig í raun ekki á því hvað þeir væru að fá út úr viðskiptum við Íslendinga í gegnum Hoyvíkur-samninginn. Sem betur fer er þetta nú allt komið til aðeins betri vegar núna og ég vona að við verðum í framtíðinni öll sammála um að mikilvægt sé að þessi lönd vinni saman. Viðskipti eru svo mikill grunnur að því að aukið samstarf verði milli ríkja.

Þá ætla ég að leyfa mér að fara aðeins yfir til Grænlands. Það er nýbúið að skila til okkar skýrslu. Það var sérstakur Grænlandshópur að störfum, gott fólk, hópur sem Össur Skarphéðinsson, fyrrverandi ráðherra, leiddi og skrifaði um tækifæri í samskiptum Íslendinga og Grænlendinga. Við erum að ræða þetta í utanríkismálanefnd og Vestnorræna ráðið er að fá kynningu á þessu. Svo höfum við sem erum að vinna að endurskoðun norðurslóðastefnunnar líka fengið kynningu á skýrslunni. Þetta er mjög góð og merkileg skýrsla og ofboðslega mikilvægt að við nýtum okkur þessi tækifæri. Ég veit að þegar maður notar orðið tækifæri þá hrökkva sumir í lás því að það eru auðvitað gagnkvæm tækifæri í þessum samskiptum og mikilvægt er að muna það. Það er áhugavert, þegar maður fer að skoða þetta, ég tek Norðurland sem dæmi, Akureyri, að viðskiptamódel margra fyrirtækja þar byggist að miklu leyti á því að þjónusta Grænland með einum eða öðrum hætti. Það getur verið verkfræðiþjónusta, flugvirkjaþjónusta, heilbrigðisþjónusta og ýmiss konar þjónusta. Þarna eru gríðarleg tækifæri fyrir löndin bæði og Grænlendingar eru að kveikja á þessu. Við sjáum ofboðslega mikinn mun þarna, með þessu góða verkefni Royal Greenland. Þeir sigla inn í Þorlákshöfn og samskipti Eimskips og Royal Greenland hafa opnað möguleika í sambandi við skipaferðir á milli. Mikil breyting hefur t.d. orðið í grænlenskum matvöruverslunum. Þar voru áður vörur frá Danmörku en nú er hægt að kaupa mikið af íslenskum vörum. Það er verið að flytja út íslenskt grænmeti, mjólkurvörur og alls konar vörur. En það þarf auðvitað að vera í hina áttina líka og við þurfum að finna leiðir til að eiga viðskipti við Grænlendinga og leyfa innflutning á vörum sem þeir eru að selja út.

Ég ætla ekki að hafa þetta mikið lengra, ég legg áherslu á að þarna eru tækifæri og mér finnst ástæða til að við höldum utan um Vestnorræna ráðið. Það er mikilvægt. Að sama skapi segi ég líka með allt alþjóðasamstarf að það þarf að vera markvisst. Það er verið að leita leiða hjá ráðinu til að hafa ályktanirnar markvissari, að þær hafi ákveðinn líftíma. Þetta er allt saman gott og gilt, ég er sammála sumu og minna sammála öðru. Það er bara eins og vera ber að oft eru mismunandi skoðanir.

Ég vil kannski fyrst og fremst leggja áherslu á mikilvægi þess að þessi lönd vinni saman til framtíðar, bæði á vettvangi þinganna en líka í atvinnulífi, menningarlífi, í skólunum okkar og víðar til að horfa til þessara góðu granna okkar og finna leiðir til að þróa samstarfsmöguleika okkar á milli því að þeir eru svo sannarlega til staðar.