151. löggjafarþing — 53. fundur,  4. feb. 2021.

Vestnorræna ráðið 2020.

492. mál
[17:56]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Við hv. þm. Guðjón Brjánsson erum 100% sammála um hvað skuli gera þegar kemur að því að efla samskiptin á milli Íslands og Grænlands eða Íslands og Færeyja því að auðvitað er það nákvæmlega eins og hann segir; við höfum reynslu af að miðla og þeir hafa reynslu af að miðla, við getum lært af þeim og þeir geta lært af okkur, þessar tvær grannþjóðir okkar. Við eigum auðvitað að gera allt sem hægt er til að bæta og liðka þau samskipti og því er Vestnorræna ráðið, Norðurlandasamstarf og þingmannaráðstefnan, sem gerð verður grein fyrir á eftir í skýrslu allt mikilvægir þættir. En það sem ég er að reyna að fitja upp á er: Eigum við að ræða líka þessi erfiðu mál, varnar- og öryggismál í t.d. Norðurskautsráðinu og þá mótsögn sem ég var að reyna að gera grein fyrir varðandi náttúrunytjar, að vera hugsanlega að vinna og nýta efni sem um leið skaða okkur beinlínis, þ.e. auka á hraða hlýnunar á norðurslóðum? Er ráðlegt að fara með það inn í Vestnorræna ráðið? Það var spurning mín. Ég vil bara minna á líka að Grænlendingar ræða nú hvort eigi að taka upp úranvinnslu í Kvanefjeld í Suður-Grænlandi. Er það eitthvað sem við myndum ræða bókstaflega innan Vestnorræna ráðsins? Auðvitað viljum við halda góðu andrúmslofti og vera ekki að skipta okkur um of af innanríkismálum. En svo eru líka stór vandamál sem þarf að ræða í bróðerni. Þetta er eiginlega spurningin: Þurfum við að ræða úran- eða olíuvinnslu innan Vestnorræna ráðsins?