151. löggjafarþing — 54. fundur,  11. feb. 2021.

stjórnarskrá lýðveldisins Íslands.

466. mál
[18:22]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Herra forseti. Það voru nokkur atriði sem ég lofaði, í fyrri ræðu minni, að ég myndi koma nánar inn á í síðari ræðunni. Þar ætla ég að staldra við atriði sem ég hafði allt of lítinn tíma til að fjalla um og mun svo sem rétt geta tæpt á að þessu sinni. Ég nefndi í fyrri ræðunni athugasemdir við ákvæðið í 10. gr. þar sem fjallað er um heimildir forsætisráðherra til að hafa umsjón með störfum og stefnu ríkisstjórnar. Þarna er aðeins tæpt á eða komið inn á álitamál sem var uppi hér fyrir rúmum áratug, þegar við vorum að fjalla um breytingar á lögum um stjórnarráð og reyndar stjórnarskrárumræðu sem átti sér stað á þeim tíma, sem varðar það hvort ríkisstjórn eigi að vera fjölskipað stjórnvald eða hvort ráðherrar eigi að bera ábyrgð á verkum sínum eins og verið hefur. Í dag er það þannig að ráðherrarnir eru sjálfstæðir í störfum sínum og bera líka fulla ábyrgð á embættisverkum sínum.

Ég velti því fyrir mér, kannski jafnvel frekar út frá ummælum í greinargerð með þessu ákvæði, hvort verið er að gera mörkin þarna á milli ógleggri, ef þessi breyting nær fram að ganga, sem er að finna í 10. gr., en er í dag. Það finnst mér að þurfi að skoða fyrir fram. Þó að textinn í stjórnarskrárákvæðinu eins og það er sett fram, um að forsætisráðherra hafi umsjón með störfum og stefnu ríkisstjórnar og samhæfi aðgerðir ráðherra ef á þarf að halda, virki tiltölulega meinlítill og virðist ekki fela í sér mikla breytingu þá vildi ég skoða þetta nánar út frá því m.a. hvort þarna er verið að feta sig í einhverja átt til fjölskipaðs stjórnvalds sem ég vil gjalda varhuga við.

Ég nefndi líka ákvæði um starfsstjórnir í 13. gr. og ég nefndi það í fyrri ræðu minni að starfsstjórnir og ráðherrar í starfsstjórn hafa í dag allar sömu stjórnskipulegar heimildir og aðrir ráðherrar. Þarna er orðalag um að ráðherrar í starfsstjórn skuli aðeins taka þær ákvarðanir sem nauðsynlegar eru. Þarna er að mínu mati verið að búa til lagalega óvissu og mér finnst að skoða þurfi þetta nánar. Hver metur hvað er nauðsynlegt? Er verið að biðja um að dómstólar skeri úr um það hvað sé nauðsynlegt í þessu sambandi? Ég er ekki alveg viss um að það sé rétt að færa sig í þessa átt.

Ég nefndi það sérstaklega að við þyrftum að skoða ákvæðið varðandi þingrof. Þar segi ég: Ef menn vilja að forseti taki sjálfstæða matskennda ákvörðun um það hvort heimila eigi þingrof eða ekki þá eiga menn að segja það. Ef menn vilja að forsætisráðherra hafi valdið til þess að ákveða þingrof þá eiga menn að segja það. Ef menn vilja að það sé vald Alþingis að ákveða þingrof þá eiga menn að segja það. Þarna er einhvern veginn verið að fara bil beggja og reglan er ekki skýr. Það er vísað til þess að forseti eigi, eftir að fram kemur tillaga frá forsætisráðherra, að hafa samráð við forseta þingsins og formenn þingflokka en svo er ekkert sagt að forseti sé bundinn af því. Ég held að með því að setja inn ákvæði eins og um það er búið í þessu frumvarpi sé verið að búa til meiri óvissu en þörf krefur. Telji menn að það sé óvissa um það í dag hvort forseti hafi sjálfstætt vald að þessu leyti eða hvort hann sé bundinn af tillögu forsætisráðherra þá er leiðin ekki sú að auka á óvissuna eins og gert er í frumvarpinu. Það þarf frekar að höggva á hnútinn og segja skýrt: Er það forseti sem á að ákveða þetta? Er það forsætisráðherra sem á að ákveða þetta? Eða er það þingið sem á að ákveða þetta? Ég held að færa megi rök með og á móti niðurstöðunni hvað öll þessi atriði varðar, en ég held að það sé ekki gott að hafa þetta einhvern veginn ófrágengið og laust í reipunum eins og þarna kemur fram.

Fleiri atriðum, herra forseti, verð ég að koma að í nefndinni. Ég mun gera eins og hæstv. forseti Steingrímur J. Sigfússon og koma athugasemdum á framfæri við hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd eða taka mál upp hér við 2. umr.