151. löggjafarþing — 55. fundur,  16. feb. 2021.

aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustöðum.

456. mál
[20:00]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegur forseti. Hér mæli ég fyrir máli sem er mjög einfalt. (BergÓ: Bíddu bara.) Hv. þingmaður Miðflokksins, Bergþór Ólason, kallar hér fram í: Bíddu bara. En að öllu gamni slepptu þá mæli ég hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, í tengslum við vinnutíma starfsmanna sem veita notendastýrða persónulega aðstoð. Í almennu tali hafa þessi lög stundum verið nefnd vinnuverndarlögin og mun ég nýta mér það til einföldunar í þessari framsöguræðu minni.

Meðan á samstarfsverkefni ríkis, sveitarfélaga og heildarsamtaka fatlaðs fólks um notendastýrða persónulega aðstoð stóð á sínum tíma var jafnframt í gildi ákvæði til bráðabirgða í vinnuverndarlögum. Var þar kveðið á um að með samkomulagi samtaka aðila vinnumarkaðarins væri heimilt að víkja frá ákvæðum laganna um hvíldartíma og næturvinnutíma þeirra starfsmanna sem veittu einstaklingum þjónustu á grundvelli verkefnisins.

Við gildistöku laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, árið 2018, var gildistími bráðabirgðaákvæðisins í vinnuverndarlögunum framlengdur til 31. desember 2019. Gildistíminn var síðan framlengdur að nýju til 31. desember 2020.   Var það gert þar sem ákvæðið þótti nauðsynlegt þannig að unnt væri að semja um frávik frá þeim vinnutímareglum sem lög um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir kveða á um vegna vinnu þeirra starfsmanna sem veita notendastýrða persónulega aðstoð.

Virðulegi forseti. Það er mikilvægt að fatlað fólk geti fengið notendastýrða persónulega aðstoð í samræmi við lög sem sett hafa verið um slíka þjónustu. Á sama tíma er mikilvægt að fram fari mat á vinnuaðstæðum þeirra starfsmanna sem starfa við það að veita slíka þjónustu, en aukinn réttur eins má ekki að rýra rétt annars. Í ljósi þessa skipaði ég nefnd þar sem samtök aðila vinnumarkaðarins og Vinnueftirlitið eiga fulltrúa. Nefndinni er ætlað að koma með tillögur að breytingum á lögum eða reglugerðum, eftir því sem við á, að því er varðar réttindi og starfsumhverfi þeirra starfsmanna sem hér um ræðir. Hefur nefndin m.a. staðið fyrir könnun meðal starfsmanna sem sinna umræddri þjónustu.

Í erindi sem nefndin sendi mér í nóvember sl. kemur m.a. fram að það sé mat nefndarinnar að skoða þurfi vinnutíma starfsmanna sem veita notendastýrða persónulega aðstoð í samhengi við aðra þætti sem tengjast skipulagi starfa viðkomandi starfsmanna, svo sem atriði tengd umsýslu samninga um umrædda þjónustu, atriði sem tengjast skyndilegum forföllum starfsmanna vegna eigin veikinda eða veikinda barna þeirra, ferðalögum notenda þjónustunnar og sjúkrahúsinnlögnum notendanna, svo eitthvað sé nefnt.

Í ljósi þess að ég hef í hyggju að fela starfshópi að taka lög um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir til heildarendurskoðunar hefur nefndin, sem ég minntist á hér að framan, lagt til að hún og fyrirhugaður starfshópur vinni saman að framtíðarlausn á skipulagi þjónustunnar þar sem litið verði bæði til hagsmuna notenda þjónustunnar og starfsmanna sem veita hana þannig að markmiðum þjónustunnar verði náð sem og að starfsmenn njóti þeirra réttinda sem gilda almennt um skipulag vinnutíma hér á landi. Ég geri ráð fyrir að nefndin og starfshópurinn muni síðan í kjölfarið koma fram með tillögur um hvernig þessum málum verði best háttað til framtíðar litið. Verði það niðurstaðan að gera þurfi tilteknar lagabreytingar vonast ég til að unnt verði að leggja fram frumvarp á Alþingi næsta vetur þar sem lagðar verða til breytingar á löggjöfinni til frambúðar. Vissulega liggur fyrir að í millitíðinni eru kosningar en ég held að verkefnið sé unnið í þannig samkomulagi á milli allra aðila að það eigi ekki að skemma fyrir.

Frumvarpið er því lagt fram til að tryggja að á meðan framangreind vinna stendur yfir verði heimilt að haga vinnutíma starfsmanna sem veita notendastýrða persónulega aðstoð með þeim hætti sem lög um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir gera ráð fyrir án þess að frávik frá vinnuverndarlögum verði meiri en þörf krefur hvað varðar vinnutíma þeirra starfsmanna sem veita þjónustuna.

Í ljósi þess sem að framan er rakið er því í frumvarpinu gert ráð fyrir að gildistími umrædds ákvæðis til bráðabirgða í vinnuverndarlögum verði framlengdur frá og með 1. janúar 2021 til næstu áramóta.  

Virðulegi forseti. Ég vil segja það hér að það eru vissulega vonbrigði að ekki hafi tekist að ná samkomulagi þarna á milli ólíkra sjónarmiða. En þetta er engu að síður ekki alveg einfalt mál vegna þess að vinnuverndarlöggjöfin hefur verið nokkuð heilög, vil ég segja, þegar kemur að ákveðnum réttindum um hvíldartíma, kaffitíma, matartíma, lengd vinnudaga o.s.frv. En þjónustan sem veitt er í gegnum NPA-samningana er þess eðlis að það er nær ógerningur að manna hana innan vinnuverndarlaganna. Það er óhætt að segja að um þá beiðni sem barst um að ákvæðið yrði framlengt enn einu sinni, er samkomulag og sátt, bæði hjá þeim aðilum vinnumarkaðar sem þarna eiga sæti en líka þeim hagsmunasamtökum sem tala fyrir og berjast fyrir réttindum fatlaðs fólks. Þess vegna legg ég áherslu á að frumvarpið verði samþykkt til hagsbóta fyrir umrædda starfsmenn og þá einstaklinga sem nýta sér þjónustu þeirra á meðan þessi vinna stendur yfir sem ég fjallaði um hér að framan.

Ég legg síðan til að að lokinni þessari umræðu verði frumvarpinu vísað til hv. velferðarnefndar Alþingis.