151. löggjafarþing — 56. fundur,  17. feb. 2021.

meðferð sakamála.

129. mál
[16:14]
Horfa

Flm. (Þorsteinn Sæmundsson) (M):

Hæstv. forseti. Ég flyt nú líklega í þriðja sinn frumvarp til laga um breytingu á lögum um meðferð sakamála, nr. 88/2008, með síðari breytingum, bann við myndatökum og hljóðupptökum í dómhúsum. Flutningsmenn eru ásamt þeim sem hér stendur, Þorsteini Sæmundssyni, hv. þingmenn Miðflokksins, Anna Kolbrún Árnadóttir, Bergþór Ólason, Birgir Þórarinsson, Gunnar Bragi Sveinsson, Karl Gauti Hjaltason, Ólafur Ísleifsson, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Sigurður Páll Jónsson.

Þetta er mjög einfalt lagafrumvarp. Það segir hér að 1. mgr. 11. gr. laganna orðist svo, með leyfi forseta:

„Óheimilt er öðrum en dómstólum að hljóðrita eða taka myndir í þinghaldi eða í dómhúsum. Jafnframt er óheimilt að streyma hljóði eða mynd úr þinghaldi eða greina frá því sem sakborningur eða vitni skýrir frá við skýrslutöku meðan á henni stendur. Dómari getur veitt undanþágu frá banni við öllu framangreindu ef sérstaklega stendur á, enda sé þess gætt að myndatöku- og hljóðupptökubúnaði verði ekki beint að aðilum dómsmáls án samþykkis þeirra. Ef tekið hefur verið upp hljóð eða teknar myndir í þinghaldi án leyfis dómara er óheimilt að birta þær hljóðupptökur eða myndir. Sama gildir um birtingu hljóð- og myndupptakna af munnlegum framburði sem dómstóll hefur annast. Einnig eru óheimilar myndatökur og hljóðupptökur af sakborningum, brotaþolum eða vitnum á leið í dómhús eða frá því án samþykkis þeirra.“

Eins og ég segi er þetta frumvarp gamall kunningi. Ástæða þess að það er flutt hér aftur er sú að komið hefur fram við fyrri flutning þessa máls að oft og tíðum geta myndatökur og hljóðupptökur sem teknar eru af sakborningum, brotaþolum og vitnum á leið í dómhús eða frá því, valdið mönnum ama, t.d. er saklaus maður sem kemur til vitnaleiðslu á sama bekk á mynd sem birtist í blaði eins og meintur brotamaður o.s.frv. Einnig maður sem hefur réttarstöðu sakbornings en reynist síðan saklaus, hann getur haft mikinn ama af því að lenda í myndatöku af þessu tagi.

Þriðja málið, sem skiptir líka verulegu máli, snýr að lögreglumönnum sem oft og tíðum eru fylgdarmenn þeirra sem koma til þinghalds í dómhús. Það hefur verið gert þannig upp á síðkastið að sumir fjölmiðlar hafa gert andlit óþekkjanleg en það er náttúrlega víst, eins og við höfum verið að ræða hér síðast í dag í ljósi skipulagðrar glæpastarfsemi á Íslandi sem fer vaxandi, að auðvitað verða lögreglumenn og jafnvel fjölskyldur þeirra fyrir ama og verða jafnvel „skotmörk“, spjótin beinast að þeim, ef andlit þeirra eru sýnileg og þekkjanleg á slíkum myndum, auk þess sem við blasir náttúrlega, nema eitthvað sé gert til að hylja það, lögreglunúmer viðkomandi o.s.frv. Þannig að þetta er það sem frumvarpið gengur út á, að koma í veg fyrir að þeir sem eiga erindi í dómhús, nákvæmlega sama í hvaða hlutverki þeir eru, verði fyrir ama og óþægindum eða jafnvel hættu út af því að verið er að taka myndir meðan á þessu stendur.

Í tímans rás, þ.e. þegar þetta mál hefur verið flutt hér áður, hafa fjölmiðlamenn margir hverjir haft horn í síðu þessa frumvarps og telja það vera brot á tjáningarfrelsi eða þrengingu þess réttar sem menn hafa til að færa fram fréttir. Ég man hins vegar eftir því alla vega í eitt eða tvö skipti þegar þetta frumvarp var flutt að þá naut það stuðnings vel megandi og vel metinna lögmanna, þar á meðal fyrrverandi formanns Lögmannafélagsins á einhverjum tímapunkti sem tók undir einmitt þau atriði sem hér eru reifuð, að sá sem kemur með stöðu sakbornings til þinghalds sem reynist svo saklaus getur orðið fyrir óþægindum, það getur jafnvel eyðilagt líf hans og mannorð, líka vitni sem vilja ekki láta þekkja sig af ótta við meintan brotamann og ekki síst lögreglumenn sem fylgja brotamönnum á vettvang.

Þetta er einfalt frumvarp. Það leggur ekki hömlur á það ef mál eru þannig vaxin, eins og hér kemur fram, að þá getur dómari í hverju máli veitti undanþágu ef þannig stendur á. Spurningin er líka, herra forseti: Hversu langt eigum við að ganga á rétt þeirra sem í hlut eiga hér til þess að fullnægja einhverjum meintum þörfum almennings um upplýsingar? Þarf almenningur að vita í hverju tilfelli fyrir sig nákvæmlega hvernig hver og einn sem tekur þátt eða þarf að taka þátt í því að mæta fyrir dóm lítur út eða um öll hans kennimerki?

Ég tel að svo sé ekki, herra forseti, og ég tel að þetta frumvarp sé ekki íþyngjandi fyrir fréttaflutning leiti menn samkomulags við dómara o.s.frv., eins og hér kemur fram. Það hefur líka komið fram og kemur fram í greinargerð með þessu frumvarpi að leiðin sem hér er lögð til hefur verið farin í nágrannalöndum. Hún hefur verið farin í Danmörku og Noregi t.d. og þaðan eru nú margar réttarreglur okkar komnar og lög mörg höfum við tekið upp eftir þeim frændþjóðum okkar. Þess vegna hefði ég talið mjög æskilegt að þetta mál fengi hraða og góða afgreiðslu í þetta þriðja sinn, allt er þá þrennt er, þegar það er lagt fram og hljóti góða umfjöllun í allsherjar- og menntamálanefnd væntanlega. Ég hefði mjög gjarnan viljað fá tækifæri til þess að taka þetta mál fyrir þar, þar sem ég sit, þannig að það megi fá farsæla framgöngu.

Það segir líka í greinargerðinni að það er orðið miklu auðveldara að taka myndir, taka upp hljóð við öll möguleg tækifæri, eins og menn vita, bæði á löglegan og ólöglegan hátt. Þar á meðal er t.d. að símar eru orðnir betri heldur en margar myndavélar voru fyrir örfáum árum síðan og næmari og með betri upptökumöguleika og þá segir það sig náttúrlega sjálft að það er auðveldara að taka jafnvel myndir af skjölum í dómsal eða skjölum í fórum sakborninga eða vitna í dómhúsi. Slíkar myndatökur geta, eins og hér segir, haft óeðlileg áhrif á gang mála.

Takmörkunin sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu gengur ekki of nærri meginreglunni um opin þinghöld að mati flutningsmanna, enda er ekki verið að takmarka möguleika fjölmiðla eða annarra til að sækja þinghald og fylgjast með því sem þar fer fram. Þvert á móti verður aðgangur áfram opinn og fjölmiðlum frjálst að fylgjast með og greina frá framgangi dómsmála. Þá er heldur ekki verið að auka heimildir dómara til að mæla fyrir um að þinghald fari fram fyrir luktum dyrum, aldeilis ekki. Þannig að öllu þessu virtu er ekki verið að „þrengja“ rétt almennings til að hafa fréttir af því sem er að gerast í þjóðfélaginu og/eða fjölmiðla og fjölmiðlamanna til að dreifa því, aldeilis ekki, heldur er þetta fyrst og fremst til þess arna gert að vernda rétt þeirra sem af einhverjum ástæðum, sem ég hef rakið að framan í ræðu minni, eiga erindi í dómsal í hlutverki vitnis, sakbornings, dómvarðar, lögreglumanna o.s.frv. Ég held, herra forseti, að þessi bætta tækni, aukin harka í brotum, skipulagning þeirra, allt þetta beini okkur að þeirri leið að það er nauðsynlegt að samþykkja þetta frumvarp.

Ég greini ekki yfirmáta mikinn áhuga í þingsalnum fyrir þessu frumvarpi. Mér þykir það miður því að mér þykir efnið eiga erindi. Ég vona að við 2. umr. þegar þetta frumvarp hefur fengið góða meðferð í nefnd muni menn kannski vakna til lífsins um það og vitundar um að þetta sé mál sem er af þeirri gerð að það þurfi raunverulega að hrinda því í framkvæmd.