151. löggjafarþing — 57. fundur,  18. feb. 2021.

uppfærð markmið Íslands fyrir aðildarríkjafund loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna (COP26).

[14:02]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Það ber að þakka hv. þm. Andrési Inga Jónssyni fyrir þessa umræðu og ráðherra. Þetta markmið í prósentum, 55% — þetta eru orð, þetta eru tölur og í sjálfu sér orð og tölur sem skipta ekki máli heldur skiptir það eitt máli hvað við ætlum okkur að gera í þessum málum. Hvað munum við gera og hver verður niðurstaðan? Við verðum að grípa til þess fljótt og við verðum líka að taka það til endurskoðunar strax að selja frá okkur hreina orku til umhverfissóða í Evrópu. Ég tek undir það sem kom hér fram að við eigum að vera sjálfstæð en ekki að elta mengandi skott Evrópusambandsins, við eigum að taka okkar sjálfstæðu ákvarðanir.

Eitt af því sem við gætum gert og þurfum að huga að er gróðurhúsarækt. Endurskoðun á starfsemi garðyrkjubænda síðasta sumar var skref í rétta átt en þörf er á frekari aðgerðum. Potturinn var stækkaður í 200 milljónir á ári. Við getum ekki haldið áfram með kerfi sem dregur úr hvata til að auka framleiðslu. Við höldum áfram með pottakerfi þar sem ákveðið magn er niðurgreitt á ári hverju. Þá stækkar greinin bara þangað til potturinn klárast. Flokkur fólksins hefur lagt fram frumvarp um frekari aðgerðir í þágu garðyrkjubænda. Við leggjum til að í stað þess að niðurgreiða fyrir fram ákveðnar upphæðir á hverju ári skuli niðurgreiða allan kostnað við flutning og dreifingu á raforku til garðyrkjubænda næstu fjögur árin. Jafnframt skuli niðurgreiða helming kostnaðar vegna uppbyggingar á dreifikerfi, svo sem vegna lagna og heimtauga. En það er ekki nóg að greiða niður orku. Það þarf líka að koma að uppbyggingu dreifikerfisins. Við vitum t.d. núna, og konudagur að renna upp, að það eru ekki einu sinni til blóm í landinu. Er það ekki okkur til háborinnar skammar? Við getum ekki einu sinni framleitt þau blóm sem þarf heldur þurfum við að setja ofurtolla á innflutt blóm sem eru flutt hingað til lands með tilheyrandi mengun og kostnaði.