151. löggjafarþing — 57. fundur,  18. feb. 2021.

brottfall ýmissa laga.

508. mál
[15:19]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Hér er fínt mál á ferð, ágætisendurvinnsla úr þingmáli mínu frá 2018, um brottfall tómra laga. Þar voru velflest af þessum lögum öllum, um kaupstaðarréttindi og bæjarstjórnir og svoleiðis, þegar inni. Hæstv. ferðamálaráðherra, fjármálaráðherra, dómsmálaráðherra, minnir mig, og gott ef ekki sjávarútvegsráðherra líka hafa lagt fram sambærileg mál, samtíning úr því frumvarpi. Það er dálítið erfitt að sjá í gömlu lögunum hver ber ábyrgð á hvaða lagabálki fyrir sig, sérstaklega í þessum tómu lögum. Ég velti fyrir mér hvort lög um sameiningu Blönduóskauptúns í eitt hreppsfélag, lög nr. 15 frá 1936, og lög um eignarnámsheimild fyrir bæjarstjórn Ísafjarðarkaupstaðar á lóð undir skólabyggingu, nr. 31/1909, séu hér undir eða hvort það geti mögulega átt heima undir fjármálaráðherra. Það er óljóst hvort þetta eru mál fyrir sveitarstjórnarráðherra eða fjármálaráðherra í þessum gömlu lögum. Væri ekki ráð fyrir nefndina að kíkja aðeins yfir nokkur af þessum tómu lögum sem voru í frumvarpinu hjá mér frá 2018 og athuga hvort þau eigi líka við ráðuneyti hæstv. ráðherra?