151. löggjafarþing — 58. fundur,  23. feb. 2021.

yfirfærsla reksturs hjúkrunarheimila frá ríki til sveitarfélaga.

[13:19]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Eins og kom fram í orðaskiptum mínum við annan hv. þingmann fyrr í þessum fyrirspurnatíma þá bind ég mjög miklar vonir við þá vinnu sem stendur núna yfir. Ég vænti þess að fá skil frá vinnuhópnum annaðhvort síðar í þessari viku eða í næstu viku og ég hef verið nokkuð langeyg eftir skilum þessa hóps, satt að segja. Gylfi Magnússon fer fyrir hópnum og í honum eru allir þeir aðilar sem hv. þingmaður nefnir hér, þ.e. Sambandi íslenskra sveitarfélaga fyrir hönd sveitarfélaganna, Sjúkratryggingar Íslands og Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu og auðvitað frá heilbrigðisráðuneytinu. Þessi vinna skiptir mjög miklu máli að því er varðar sameiginlegan skilning, ekki bara á því hver kostnaðurinn er við þjónustuna sem verið er að veita heldur ekki síður hver skilin eru milli annars vegar félagsþjónustu og hins vegar heilbrigðisþjónustu. Það er nokkur einföldun sem hefur verið í umræðunni sem lýtur að því hverjir beri skyldur gagnvart sínum elstu íbúum í þessum efnum og það eru vonbrigði þegar sveitarfélög segja sig frá þjónustu sem lýtur að þeim hluta, sem er þjónusta við þeirra elstu borgara. Það skiptir þess vegna mjög miklu máli að greina þarna á milli, annars vegar þeirrar þjónustu sem er sannarlega félagsþjónusta og hins vegar heilbrigðisþjónustu af því það er rétt sem kemur fram í máli hv. þingmanns að hjúkrunarheimili eru ekki heilbrigðisstofnanir í venjulegum skilningi þess orðs heldur heimili fólks. Fólk er skráð þar með lögheimili en á auðvitað sama rétt og allir aðrir borgarar samfélagsins á því að njóta heilbrigðisþjónustu óháð þeim aldri sem viðkomandi er á. Ég er mjög meðvituð um þau mál sem hv. þingmaður nefnir en ég tel að stjórnvöld og þeir aðilar sem hafa komið að borðinu beri sameiginlegar skyldur gagnvart íbúunum.