151. löggjafarþing — 60. fundur,  25. feb. 2021.

staða sjúkraþjálfara og talmeinafræðinga.

[14:07]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir frumkvæðið að þessari umræðu sem er góð og mikilvæg og sjálfsagt að taka hana hér í þingsal. En það er ástæða til að leiðrétta ákveðna þætti í forsendum hv. þingmanns sem lúta að því annars vegar þegar um er að ræða samning sem er í gildi, þó að hann sé sannarlega framlengdur frá einum mánuði til annars, og er þá um að ræða talmeinafræðinga og hins vegar að sannarlegu samningsleysi varðandi sjúkraþjálfara.

Í fyrsta lagi spyr þingmaðurinn með hvaða hætti heilbrigðisyfirvöld séu að bregðast við skorti á talmeinaþjónustu fyrir börn og hvernig þau ætli að bregðast við aðstæðum varðandi talmeinaþjónustu á landsbyggðinni í ljósi kröfu um tveggja ára starfsreynslu talmeinafræðinga. Sjúkratryggingar Íslands skoða nú gerð fyrirtækjasamninga við talmeinafræðinga í stað rammasamnings sem nú er í gildi þar sem samið er við einstaka talmeinafræðinga sjálfstætt. Ef sú leið yrði farin skapast sá möguleiki að hluti talmeinafræðinga á stofu geti starfað samkvæmt samningi þó að tveggja ára skilyrði um starfsreynslu sé ekki uppfyllt þar sem nýútskrifaðir myndu þá starfa undir handleiðslu reyndari talmeinafræðinga. Ákvæðið um skilyrði um tveggja ára starfsreynslu kom inn í rammasamning á árinu 2017 og samþykktu talmeinafræðingar þann samning. Fjögur ár eru liðin frá gildistöku ákvæðisins og því ljóst að tímatöfin í kjölfar þess er liðin. Nú bætast árlega við talmeinafræðingar sem starfa samkvæmt rammasamningi SÍ.

Starfshópur fulltrúa heilbrigðisráðuneytis, samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis og Sambands íslenskra sveitarfélaga skoðar breytt fyrirkomulag talmeinaþjónustu við skólabörn og hvernig megi bæta talmeinaþjónustu við umræddan hóp. Starfshópurinn stefnir að því að skila tillögum til ráðuneytanna á næstu vikum. Hvað landsbyggðina varðar sérstaklega hafa möguleikar verið í þróun á undanförnum árum sem eru mikilvægir og hægt er að nýta í gegnum fjarheilbrigðisþjónustu eða fjarþjálfunarbúnað, til að mynda búnað Köru Connect sem nýtist við fjarþjónustu talmeinafræðinga og hefur reynst vel. Svo held ég að rétt sé að nefna að Covid hefur haft þau áhrif að fólk er óhræddara við að nota slíkan búnað. Það hefur á stundum gefist vel þótt að sjálfsögðu komi ekkert í staðinn fyrir að hitta skjólstæðing þegar um flókna fagþjónustu er að ræða. Ég vil líka nefna Heyrnar- og talmeinastöð. Þar starfa þrír talmeinafræðingar sem eru sérhæfðir í þjónustu við heyrnarskert börn og endurhæfingu fólks með kuðungsígræðslu og börn með skarð í vör og góm. Þeir grípa sem sé flóknustu tilvikin.

Í öðru lagi spyr hv. þingmaður um rökin fyrir því að ákvæði um tveggja ára starfsreynslu var sett í reglugerð sem skilyrði fyrir því að sjúkraþjálfarar kæmust á samning hjá Sjúkratryggingum Íslands og spyr sérstaklega hvort ráðherra hyggist draga það skilyrði til baka. Þá er mikilvægt að árétta að það er ekki rétt sem þingmaðurinn segir að ákvæðið sé skilyrði fyrir því að sjúkraþjálfarar komist á samning, eins og hv. þingmaður orðar það. Reglugerðin er sett til að tryggja áframhaldandi greiðsluþátttöku til sjúkratryggðra í því millibilsástandi sem nú varir, þ.e. þegar við erum ekki með samninga. Þar er kveðið á um umrætt skilyrði um tveggja ára reynslu, þ.e. í reglugerðinni en ekki í samningi. Það er því misskilningur hjá hv. þingmanni að það sé svo. Sjúkraþjálfarar hafa ekki enn samið við Sjúkratryggingar Íslands.

Hér skiptir mestu máli að þegar starfsstétt hefur ekki náð samningum við SÍ um veitingu þjónustu verðum við að horfast í augu við að við þurfum að forgangsraða fjármagni til viðkomandi málaflokks og það þarf að gera á faglegum forsendum. Þegar Sjúkratryggingar semja um heilbrigðisþjónustu er í samningnum kveðið á um ákveðið eftirlit með þeirri þjónustu sem veitt er, með magni, gæðum, kostnaði og árangri þjónustunnar. En þegar samningsleysi stendur yfir í málaflokki, eins og staðreyndin er varðandi sjúkraþjálfara, hefur SÍ einungis eftirlit með því að reikningar séu gerðir í samræmi við veitta þjónustu og gjaldskrá. Þess vegna er að mati SÍ nauðsynlegt að gera enn ríkari faglegar kröfur til þeirra aðila sem veita þjónustu sem niðurgreidd er af ríkinu samkvæmt reglugerð.

Í öðru lagi má nefna að samkvæmt upplýsingum frá SÍ virðist meiri hluti þeirra sem útskrifast úr sjúkraþjálfun fara út í sjálfstæðan rekstur en á sama tíma skortir sjúkraþjálfara til starfa á sjúkrahúsum og stofnunum en æskilegt væri að fá fleiri sjúkraþjálfara til starfa hjá hinu opinbera. Ákvæðið verður ekki dregið til baka úr reglugerð en það verður að koma í ljós hver niðurstaðan verður við samningaborðið. Við það sitja tveir aðilar, (Forseti hringir.) þ.e. Sjúkratryggingar Íslands og sjúkraþjálfarar sem síðan ákveða innihald samningsins.(Forseti hringir.)

Virðulegi forseti. Ég kem væntanlega að þriðju spurningu hv. þingmanns hér í lok umræðunnar.