151. löggjafarþing — 61. fundur,  2. mars 2021.

breytingar á skipulagi og framkvæmd skimunar fyrir krabbameini í leghálsi.

560. mál
[14:42]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Herra forseti. Ég þakka forseta fyrir að leyfa mér að gera grein fyrir atkvæði mínu. Á vef Morgunblaðsins er vitnað í viðtal í Læknablaðinu þar sem rætt er við Karl G. Kristinsson, yfirlækni á sýkla- og veirufræðideild Landspítalans. Þar segir, með leyfi forseta:

„Við hefðum getað greint öll sýnin.“

Svo hvet ég þingmenn til að lesa þetta viðtal í Læknablaðinu. Það er með ólíkindum, herra forseti, að ríkisstjórnin skuli velja þá leið að nýta ekki tækni og þekkingu sem til er innan lands, nýta ekki þau tækifæri sem felast í því að efla þá þekkingu og nýta þá tækni og þau tæki og tól sem nýbúið er að festa kaup á fyrir Landspítalann. Þess í stað ákveður ríkisstjórnin að fara með þessi verkefni úr landi, flytja þau til Danmerkur. Það er með öllu óskiljanlegt, herra forseti, og við hljótum því að fá skýringar frá ráðherra og ríkisstjórninni þegar skýrslan berst þinginu.