151. löggjafarþing — 62. fundur,  3. mars 2021.

störf þingsins.

[13:01]
Horfa

Þórarinn Ingi Pétursson (F):

Virðulegi forseti. Það er alltaf áhugavert að vega og meta skörun málaflokka innan stjórnsýslunnar. Ráðuneytin eru tíu og ráðherrarnir ellefu með hina ýmsu málaflokka. Sum ráðuneyti, ráðherrar, hafa marga málaflokka á sinni könnu og skörun málaflokka er misjöfn eins og gengur. Mig langar að taka hér fyrir annars vegar sjávarútvegs- og landbúnaðarmál og hins vegar umhverfis- og auðlindamál. Hvað er sameiginlegt með sjávarútvegi og landbúnaði? Jú, það er nokkuð augljóst. Þar er verið að framleiða matvæli. Vissulega er hægt að tala um nýtingu auðlinda. Förum þá í umhverfis- og auðlindamál. Þar er mikil skörun á milli málaflokka. Í mjög stuttu máli er allt undir þegar kemur að nýtingu og vernd auðlinda þjóðarinnar utan þeirrar auðlindar sem fiskurinn er í sjónum. Það má með sanni segja að landbúnaður sé nýting auðlinda. Landbúnaðar- og umhverfismál eru nátengd nýtingu og vernd. Bændur eru vörslumenn lands og verkefni eins og Bændur græða landið, landbótasjóður og GróLind eru allt verkefni sem hafa skilað gríðarlegum árangri við uppgræðslu og endurheimt landgæða til beitar og einnig til kolefnisbindingar. Fjöldi bænda stundar skógrækt samhliða við annan búskap og skógrækt til nytja eða skógrækt til kolefnisbindingar.

Virðulegi forseti. Ein helsta auðlind þjóðarinnar er og verður landið sjálft og eitt af mörgum tækifærum framtíðar er viðkemur nýtingu á landi verður kolefnisbinding. Gríðarleg tækifæri og hagsmunir koma til með að felast í kolefnisbindingu. Að geta selt kolefnisbindingu á landi gæti orðið mikilvæg stoð í að treysta almennan búskap og byggð í landinu. Því þarf að auka verulega alla ræktun á landi, akuryrkju, skógrækt og landgræðslu. Það gæti því verið áhugavert að endurskoða skipulag ráðuneyta til að vel takist til. Þeir málaflokkar sem eiga (Forseti hringir.) vel saman í þessari áskorun framtíðarinnar eru ráðuneyti landbúnaðar og umhverfis.