151. löggjafarþing — 62. fundur,  3. mars 2021.

samgönguúrbætur á norðanverðum Tröllaskaga.

518. mál
[14:16]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég fagna þessari umræðu og þakka hv. fyrirspyrjanda og þeim sem tóku þátt og lögðu hér málefnalega til umræðunnar. Það sem við sættum okkur einu sinni við þykir ekki nóg í dag, og það kom fram í fyrirspurn fyrirspyrjanda um heilsársveg, við gerum einfaldlega meiri kröfur í dag. Þess vegna eru komnar kröfur eins og einn hv. þingmaður nefndi, á Vestfjörðum og reyndar miklu víðar um land, um jarðgöng og það er stefnumarkandi ákvörðun að ákveða að alltaf sé a.m.k. unnið að einum jarðgöngum í einu. Það er meira en við höfum haft til þessa. Það er rétt að nú verður bið í eitt eða tvö ár frá því að Dýrafjarðargöng klárast og þar til vinna við næstu göng hefst en það er ekkert því til fyrirstöðu. Þess vegna, á grundvelli samgönguáætlunar, var ég búinn að fela Vegagerðinni að hefja undirbúning að næstu jarðgangaáætlun sem yrði þá meiri umfangs en sú sem birtist í síðustu samgönguáætlun þar sem þar var lítill tími til undirbúnings. Sú vinna gengur mjög vel og ég vonast til að við getum komið upplýsingum um það m.a. til þingsins og til umræðu hér þar sem miklu fleiri kostir eru reifaðir og þá kemur til kasta þingsins að forgangsraða jarðgangakostum. Það kemur vel til álita í mínum huga að horfa til fyrirmyndar frá Færeyjum sem byggist auðvitað á því að þar leggja menn til hluta af eigin fé til að minnka kostnaðinn upphaflega, og fjármagnskostnaðinn ekki síst. Það er auðvitað hagstætt að taka lán um þessar mundir en gleymum því ekki að þau þarf að borga til baka og ekkert er ókeypis. En ég er algerlega tilbúinn til að skoða allar hugmyndir sem lúta að því að gera fleiri jarðgöng á Íslandi (Forseti hringir.) vegna þess að kosturinn við að auka öryggi vegfarenda með jarðgöngum er svo mikill umfram það að fara fjallvegi.