151. löggjafarþing — 66. fundur,  12. mars 2021.

varnarmálalög.

485. mál
[13:25]
Horfa

Flm. (Kolbeinn Óttarsson Proppé) (Vg):

Forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á varnarmálalögum. Þetta er í annað sinn sem ég mæli fyrir frumvarpinu og með mér á því líkt og áður eru fleiri þingmenn úr þingflokki Vinstri grænna. Það eru hv. þingmenn Ari Trausti Guðmundsson, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Ólafur Þór Gunnarsson og Steinunn Þóra Árnadóttir.

Frumvarpið gerir ráð fyrir breytingu á tveimur greinum laganna. Í fyrsta lagi að við 3. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:

„Allar bókanir og viðbætur við varnarsamninginn skal bera undir Alþingi til samþykktar. Hið sama gildir um skilasamninga og hvers kyns samkomulag sem felur í sér breytingu á framkvæmd varnarsamningsins. Óheimilt er að víkja frá ákvæði þessu á grundvelli 2. mgr. þessarar greinar.“

Í öðru lagi að við V. kafla laganna bætist ný grein, 16. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

„Uppbygging og framkvæmdir á mannvirkjum Atlantshafsbandalagsins o.fl.

Alla uppbyggingu og allar framkvæmdir umfram eðlilegt viðhald á öryggissvæðum, varnarsvæðum, mannvirkjum Atlantshafsbandalagsins sem og aðrar sambærilegar framkvæmdir og uppbyggingu skal bera undir Alþingi til samþykktar. Óheimilt er að víkja frá ákvæði þessu á grundvelli 2. mgr. 3. gr.“

Forseti. Frumvarpið gerir sem sagt ráð fyrir því að það sem ekki er beinlínis kveðið á um í varnarsamningnum eða það sem ekki er beinlínis bara eðlilegt viðhald eða viðhald sem getur talist eðlilegt heldur eru einhvers konar viðbætur, uppbygging og bókanir við samninginn skuli bera undir Alþingi til samþykktar.

Ísland er aðili að Atlantshafsbandalaginu, vissulega, og hefur sem aðildarríki skyldum að gegna. Með varnarsamningnum er átt við samning milli lýðveldisins Íslands og Bandaríkjanna á grundvelli Norður-Atlantshafssamningsins frá 5. maí 1951 og viðbætur við hann, en með honum er kveðið á um skyldur Íslands sem aðildarríkis. Viðbætur og bókanir við þann samning hafa hins vegar ekki ratað inn í þingsal. Það hlýtur að teljast óeðlilegt að löggjafinn, við sem hér störfum, fái aldrei neitt um það að segja. Það er nefnilega athyglisvert — og ekki víst að allir átti sig á því þó að einhver muni kannski eftir því frá umræðu um þetta mál í fyrra, sem voru mjög góðar umræður, svo að ég taki það fram — að umræður um varnarmál hafa á síðustu árum fyrst og fremst snúist um orðna hluti, þ.e. uppbyggingaráform hafa ekki komið til umræðu fyrr en eftir að þau hafa verið samþykkt. Þannig er það árvisst að þegar Bandaríkjaþing samþykkir fjárlög virðast margir á Íslandi fyrst átta sig á því að um framkvæmdir og uppbyggingu hafi verið samið á varnarsvæðinu. Þannig fréttum við oft af þessu. Fyrir því er m.a. sú ástæða að ekki þarf samþykki Alþingis fyrir slíkri uppbyggingu, heldur fer ráðherra málaflokksins með umboð til samninga fyrir Íslands hönd. Breytingar á eðli varnarsamningsins fá því ekki þá pólitísku umræðu fyrir fram sem eðlilegt hlýtur að teljast.

Forseti. Hver sem afstaða fólks er til viðveru starfsfólks herliða og uppbyggingar mannvirkja á varnarsvæðinu hlýtur það að vera kappsmál allra að auka lýðræðislega umræðu um varnarmál. Samþykkt Alþingis á breytingum á þeim skyldum sem Ísland tekur sér á herðar styrkir einnig grunn slíkra ákvarðana, hverjar sem þær verða.

Forseti. Þetta mál snýst á engan hátt um afstöðu fólks til viðveru herliða hér á landi eða til varnarsamningsins, heldur einfaldlega um það sem við hljótum öll að geta sameinast um, að auka lýðræðislega umræðu, auka aðkomu Alþingis að þessum málum, og að þetta sé rætt fyrir fram, ekki tilkynnt um það eftir á.

Ég bar þá von í brjósti síðast þegar ég mælti fyrir þessu máli, forseti, að það næði fram að ganga. Ég taldi í ljósi orða fólks um að það vildi auka umræðu um varnarmál og það vildi lyfta þessum málum upp, að málið gæti fengið meiri umfjöllun og afgreiðslu í nefndum og þingsal.

Síðast í gær, forseti, lýsti fólk og þar með talið hæstv. utanríkisráðherra ánægju með einmitt það að varnarmál væru rædd í þinginu. Þess vegna vona ég að það gerist núna sem ekki gerðist þá, að málið fái almennilega umfjöllun í þingnefnd, sem það gerði því miður ekki síðast, komi hingað til okkar og við tökumst á hendur það verkefni sem ég held að við séum ofboðslega mörg sammála um að við eigum að gera, þ.e. að taka meiri ábyrgð á því sem hefur verið nefnt varnarmál, á veru erlendra herliða hér, hver sem afstaða okkar er svo til veru herliða eða samninga þar um.

Ég fagna því að geta mælt fyrir málinu aftur, forseti, þó svo að sú ánægja sé beiskju blandin þar sem ég bar þá von í brjósti í fyrra að við bærum einfaldlega gæfu til að gera málið að lögum. En ég vona að betur takist til núna og legg til að málið fari til hv. utanríkismálanefndar að lokinni þessari umræðu.