151. löggjafarþing — 67. fundur,  16. mars 2021.

efnahagsmál.

[13:10]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Það er nú þannig að ég var ekki í þeirri ríkisstjórn sem sat hér þegar Seðlabankinn hafði engar heimildir til að bregðast við því ástandi sem upp kom árið 2008. Betur væri að sú ríkisstjórn hefði séð þá stöðu fyrir og tryggt Seðlabankanum og stjórnvöldum heimildir til að taka á því ástandi sem þá kom upp í efnahagsmálum þjóðarinnar. Ég vil frekar vera í ríkisstjórn sem nálgast hlutina af varúð og sér hlutina fyrir og tryggir slíkar heimildir í lögum til lengri tíma. (Gripið fram í.) Ef við tölum um léttúð þá er það léttúð að nálgast það með þeim hætti að hér sé ekki verið að tryggja nægjanlega skýr þjóðhagsvarúðartæki í lögum um Seðlabankann. Það er léttúð. Ég vil minna á það hér að erlend lántaka ein og sér felur ekki endilega í sér að tekin sé aukin gjaldeyrisáhætta. Við erum að vinna þetta með Seðlabanka Íslands enda býr hann yfir ríkulegum gjaldeyrisvaraforða og er að vinna með ríkissjóði að því að gengistryggja þetta lán.

Ég vil minna hv. þingmann á, sem kemur hér upp og talar eins og allt sé í kaldakoli, að staðreyndin (Forseti hringir.) er sú að samdrátturinn er minni en spáð var, afkoma ríkissjóðs er betri (Forseti hringir.) og það er vegna aðgerða stjórnvalda.