151. löggjafarþing — 67. fundur,  16. mars 2021.

atvinnumál innflytjenda á Suðurnesjum.

[13:40]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Forseti. Ráðgjafarstofa innflytjenda opnaði sem tilraunaverkefni í síðasta mánuði. Það er óhætt að segja að reynslan af verkefninu, eftir þó ekki lengri tíma, sé býsna góð. Mörg hundruð fyrirspurnir hafa borist og það hefur sýnt sig að þörfin var gríðarlega mikil og er enn. Þegar ég var að vinna að þessu máli á sínum tíma komu margir aðilar að og vildu taka utan um verkefnið og hýsa hjá sér. Þar á meðal var Reykjanesbær og skyldi engan undra því að hlutfall innflytjenda þar er býsna hátt. Nú vitum við að staðan þar er sérstaklega slæm þegar kemur að atvinnustigi. Atvinnuleysi þar er kringum fjórðungur. Í gögnum sem ég fékk, þegar ég heimsótti bæjarstjórann á dögunum, kom fram að á ákveðnum tímapunkti var hlutfall erlendra ríkisborgara af atvinnulausum þar um 45%. Ég verð að játa að ég veit ekki nákvæmlega hver staðan er núna. Ráðgjöf á því sviði er gríðarlega mikilvæg fyrir fólk sem þekkir ekki inn á kerfið. Það er mjög mikilvægt að hjálpa þeim sem ekki þekkja kerfið nógu vel og fræða þau um réttinn sem þau hafa í þeirri stöðu að missa vinnu sína. Sem dæmi má nefna að í ráðgjafarstofu innflytjenda er núna opið hús og hægt að ganga inn og hitta ráðgjafa frá Vinnumálastofnun í húsnæði stofunnar hér við Hlemm, sem sýnir hve þörfin er mikil.

Forseti. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra að því hvort, í ljósi alls þess sem hér hefur verið rakið, ekki sé einboðið að opna útibú ráðgjafarstofu innflytjenda í Reykjanesbæ þar sem þörfin fyrir það að geta gengið inn af götunni og fengið ráðgjöf er svo sannarlega fyrir hendi hjá þessum hópi.