151. löggjafarþing — 67. fundur,  16. mars 2021.

þjóðkirkjan.

587. mál
[16:07]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni að almennt er krafan um jafnræði milli ólíkra trúfélaga og lífsskoðunarfélaga sífellt meira áberandi, ekki síst meðal yngri kynslóðarinnar. Sjálfstæð kirkja, óháð ríkisvaldinu, samrýmist líka betur trúfrelsi og skoðanafrelsi en sérstaðan sem þjóðkirkjan hefur notið í íslenskri stjórnskipan. Fljótlega eftir framlagningu málsins þarf að huga að næstu skrefum. Ég hyggst gera það með vinnu við næstu skref sem ég held að þurfi að taka einhvern tíma. Ég held að ekki myndi ríkja sátt um að leggja fram frumvarp um fullan aðskilnað ríkis og kirkju heldur sé mikilvægt að gera það í sátt á milli ólíkra hópa og finna bæði út úr því sem hv. þingmaður nefnir varðandi fjármögnunina og líka hvaða þjónustu kirkjan hefur verið að veita og veitir í samfélaginu í dag. Í mínum huga er ekki spurning að kirkjan getur vel sinnt öllum verkefnum sínum algjörlega óháð ríkinu. Ég held að með þessu séum við að stíga eitt skref í að auka sjálfstæði hennar, að ekki sé kveðið á um hina ýmsu þætti í lögum heldur ráði hún málum að meiri hluta sjálf. Ég mun skoða þá þætti og vinna að þeim. Auðvitað þarf að skoða þá þætti sem hv. þingmaður nefndi en líka almennt fyrirkomulag sóknargjalda og fjölmargra annarra atriða. Ég held að við höfum stigið mikilvæg skref. Eitt skrefið var frumvarp um að starfsmenn kirkjunnar væru ekki lengur opinberir starfsmenn. Þetta nýja frumvarp er vissulega ný heildarlög en einfaldar reglur og lög kirkjunnar til muna og eykur sjálfstæði hennar.