151. löggjafarþing — 68. fundur,  17. mars 2021.

sóttvarnaráðstafanir og bólusetningar gegn Covid-19, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[14:37]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Eins og farið hefur verið yfir hér í umræðunni og tilkynnt var af ríkisstjórninni í gær verður landið opnara frá 1. maí eða takmarkanir á landamærum breytast. Eftir það þarf fólk sem hverfandi líkur eru á að beri með sér Covid-smit ekki í sóttkví ef það getur sýnt fram á vottorð um bólusetningar eða fyrra smit og hefur ítrekað komið fram hér að vottorðin þurfi að uppfylla sömu kröfur og gerðar eru til vottorða hér innan lands. Jafnframt var í gær ítrekuð fyrri ákvörðun frá því í janúar, að kröfur um sóttkví muni frá 1. maí byggja á litakóðunarkerfi Sóttvarnastofnunar Evrópu.

Þessar tilkynningar hafa gríðarlega mikla þýðingu fyrir fólk og fyrirtæki sem ætla sér að vera tilbúin í viðspyrnuna á öllum sviðum samfélagsins og við vitum að þar verður ferðaþjónustan í gríðarlega mikilvægu hlutverki. Gærdagurinn var því stór dagur fyrir íslenskt efnahagslíf og íslenska ferðaþjónustu þar sem ferðaþjónustan er núna í færum til þess að skipuleggja starfsemi sína, a.m.k. að einhverju marki, fyrir sumarið og taka til að mynda ákvarðanir um ráðningu starfsfólks, þótt vissulega sé ýmiss konar óvissa uppi. Mig langar þess vegna að halda áfram með fyrri spurningu um samspil aðgerða á landamærum og framvindu bólusetningar innan lands í samspili við líkur á smitum innan lands, sem sagt vísa aftur til umræðunnar um reiknilíkanið. Munu frekari ákvarðanir um ráðstafanir á landamærum byggja á líkum á smiti innan lands eða líkum á smitum (Forseti hringir.) í löndum þaðan sem ferðafólk kemur, einhvers konar litakóðun, eða er það samspil þarna á milli?