151. löggjafarþing — 68. fundur,  17. mars 2021.

sóttvarnaráðstafanir og bólusetningar gegn Covid-19, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[14:55]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. ráðherra kærlega fyrir skýrslugjöfina. Það skiptir miklu máli að vera í þessu mikla sambandi við þingið og væri auðvitað frábært ef þingið fengi að taka þátt í umræðu áður en ákvarðanir eru teknar. En ég átta mig á því að það er ekki auðfengið. 92% þjóðarinnar styður þær aðgerðir sem hafa verið og nú hefur verið ákveðið að fara í breytingar. Það kom fram í máli hæstv. ráðherra að hún hafi í einu og öllu fylgt sóttvarnalækni en að sóttvarnalæknir hafi lagt til eitthvað fleira og tvítók hæstv. ráðherra að hæstv. dómsmálaráðherra færi með ákvarðanir á landamærum en að þær tillögur sem ekki hefur verið farið eftir frá sóttvarnalækni væru til skoðunar. Því spyr ég hæstv. ráðherra: Má skilja hana þannig að hún fylgi í einu og öllu ráðleggingum sóttvarnalæknis en það sé ekki svo með aðra ráðherra í ríkisstjórn Íslands?