151. löggjafarþing — 68. fundur,  17. mars 2021.

sóttvarnaráðstafanir og bólusetningar gegn Covid-19, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[14:56]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég er ekki hissa á að þetta kunni að hljóma ruglingslega. Í fyrsta lagi er það að þegar ég fer yfir tillögur sóttvarnalæknis um aðgerðir á landamærum eru þær þrjár sem hann leggur til í meginatriðum. Í fyrsta lagi það sem lýtur að vottorðunum og var til umræðu í gær. Í öðru lagi talar hann um börn og að það þurfi að prófa þau á landamærum en til þess þurfum við betri undirbúning. Í þriðja lagi er það meiri notkun á sóttvarnahúsum, eða farsóttarhúsum eftir atvikum, sem tengist þá afbrigðinu sem um er að ræða o.s.frv. Þetta eru þær tillögur sem koma frá sóttvarnalækni.

Reglugerðin sem ég hef yfir að ráða varðandi landamærin snýst um sóttvarnaráðstafanir á landamærum. Dómsmálaráðherra hefur yfir að ráða reglugerð um för yfir landamæri og hún breytir reglugerðinni þannig að almennt bann við tilefnislausum ferðum þriðja ríkis borgara yfir ytri landamæri nái ekki til einstaklinga sem eru með þessi fullnægjandi vottorð. (Forseti hringir.) Niðurstaðan er sú að við, bæði heilbrigðisráðherra og dómsmálaráðherra, förum að tillögu sóttvarnalæknis vegna þess að hann fjallar ekki sérstaklega um það (Forseti hringir.) hvort ferðir viðkomandi séu tilefnislausar eða ekki.