151. löggjafarþing — 72. fundur,  23. mars 2021.

opinber stuðningur við nýsköpun.

322. mál
[17:28]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um opinberan stuðning við nýsköpun, sem er alltaf stórt og mikilvægt mál, en sér í lagi við þær aðstæður sem nú eru í atvinnumálum þjóðarinnar sem undirstrika rækilega mikilvægi þess að atvinnulífið byggi á fjölbreyttari stoðum til að draga úr þunga áfalla á borð við það sem við höfum glímt við undanfarið ár.

Á vef Stjórnarráðsins segir, með leyfi forseta: „Nýsköpun er undirstaða framfara og aukinnar verðmætasköpunar í samkeppnisdrifnum, alþjóðavæddum heimi.“ Undir það má svo sannarlega taka sem undirstrikar að við erum hér í dag að ræða um grundvallarhagsmuni okkar allra. Atvinnulíf okkar Íslendinga er því miður of einhæft og er of viðkvæmt fyrir sveiflum. Þau áföll sem við verðum fyrir verða þyngri vegna þess. Sum áföllin eru beinlínis komin til vegna þess hve einhæft atvinnulífið er. Okkur hættir til að vera fljót að gleyma því, sem hefur leitt til þess að nýsköpun hefur í hinni pólitísku umræðu oft verið viðfangsefni lausna til skemmri tíma frekar en hugmyndafræði til lengri tíma. Áhersla á nýsköpun er í mínum huga einfaldlega forsenda þess að við getum hér á Íslandi áfram tryggt sambærileg lífsgæði, tryggt að hér sé og verði eftirsóknarvert fyrir ungt fólk að búa og fyrir börnin okkar að lifa og starfa.

Það er alveg sama hvort við horfum á tækifæri til verðmætasköpunar, á auknar gjaldeyristekjur, á lausnir á áskorunum á borð við þær sem við stöndum frammi fyrir í dag, hvort við horfum á líffræðilegar breytingar á samfélaginu, jafnréttismál, loftslagsmál; nýsköpun er ansi oft svarið. Nýsköpun er okkur af þeirri ástæðu einfaldlega nauðsyn. Hún er okkur nauðsynleg, sérstaklega núna þegar við þurfum að staldra við og spyrja okkur með hvaða hætti við ætlum að vaxa út úr kreppunni, hvernig við ætlum að byggja upp og hvernig við ætlum að tryggja samkeppnishæf lífskjör á Íslandi til lengri tíma litið.

Vissulega hefur ríkisstjórnin gert ýmislegt gott varðandi það að styðja við nýsköpun, tækni og þróun. Við höfum séð sumt af því birtast núna sem tímabundið átak vegna niðursveiflunnar og kreppunnar, t.d. bráðabirgðaákvæði sem bætt var við lög um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki sem fólu í sér tímabundna hækkun endurgreiðslna vegna rannsókna og þróunar. Ég myndi í því sambandi vilja nefna að þingflokkur Viðreisnar lagði fram tillögu sem myndi gera þá bráðabirgðaráðstöfun varanlega þannig að sá stuðningur yrði þá almennur en ekki sértækur.

Aðeins um þetta mál og þá umræðu sem við höfum átt hér í þingsalnum í dag, þá er auðvitað eitt af því sem birtist í málinu áform stjórnvalda um að leggja niður Nýsköpunarmiðstöð Íslands og finna verkefnum stofnunarinnar nýjan farveg. Ég held að það megi segja, til þess að gæta sanngirni, að málið lýtur að því með hvaða hætti stjórnvöld sjá fyrir sér að styðja við nýsköpun, með hvaða hætti hið opinbera á að koma þar að, að þetta sé spurning um hvernig en ekki hvort. Í því sambandi finnst mér líka skipta máli að Nýsköpunarmiðstöð var sett á fót árið 2007, að mig minnir, með sameiningu Iðntæknistofnunar og Rannsóknastofu byggingariðnaðarins. Síðan þá hefur auðvitað margt gerst og eðlilegt að líta til þess í umræðu um þetta mál.

Ég er sammála markmiði frumvarpsins, þ.e. því markmiði að efla opinberan stuðning við nýsköpun á landinu og að það verði gert með sveigjanlegu stuðningskerfi, að það eigi að gera með sterkum tengslum við háskólasamfélagið, með sterkum tengslum við atvinnulíf og með áherslu á nýsköpun á landsbyggðinni. Ég hefði reyndar viljað sjá það strax sem leiðarstef um markmið hér að baki, að þar hefði komið fram markmið um þátt kvenna í nýsköpun. En ég fagna markmiðum um sterk tengsl við háskólasamfélag og atvinnulíf og lít svo á að það sé gríðarlega mikilvægt markmið að eitt af leiðarstefjunum sé nýsköpun á landsbyggðinni.

Það er í mínum huga ákveðin einföldun að tala með öðrum hætti en þeim að markmiðið lúti að formi. Það lýtur að því með hvaða hætti stuðningi hins opinbera sé best komið til þeirra sem eiga að njóta. Það er auðvitað krefjandi og spennandi pólitísk spurning í ljósi þeirra miklu hagsmuna sem búa að baki og vitaskuld alveg sérstaklega núna. Það eru spurningar á borð við þær hvernig við viljum búa að nýsköpun, hvernig við viljum virkja kraft frumkvöðla og hvernig kröftum hins opinbera og einkageirans sé best varið í þágu nýsköpunar.

Markmiðið sýnist mér við fyrstu yfirferð á þessu máli vera að fjármagnið renni þangað sem þess er mest þörf. Ég held að það megi segja um þetta mál eins og mörg að það sé alltaf mikilvæg forsenda framþróunar að þora að spyrja og rýna, og í þessu tilviki að þora að endurskoða hlutverk stofnana. Stjórnvöld hverju sinni eiga að mínu mati alltaf að hugsa um það hvernig þau geti best þjónað hlutverki sínu. Í þessu sambandi er spurningin: Hvernig getum við best þjónað hlutverki við stuðning við nýsköpun í landinu öllu? Þegar ég hef verið að skoða umsagnir um þetta mál þá vekur það í fyrsta lagi athygli að umsagnirnar eru margar og úr ólíkum áttum. Þar koma vissulega fram ólík sjónarmið, en það er hreint ekki svo að allir séu mótfallnir málinu eða markmiðum þess. Við sjáum það þegar við rýnum t.d. umsögn frá Háskóla Íslands, sem fagnar markmiði frumvarpsins um að efla opinberan stuðning við nýsköpun í landinu. Þar kemur fram mjög mikilvægur punktur um að vitaskuld verði að tryggja fjárframlög frá ríkinu. Það er kannski dálítið algengt stef sem við sjáum í umsögnum við mál þessarar stjórnar og það blasir við að það er forsenda þess að vel fari að fjárframlög séu tryggð. Þar er reyndar líka fjallað um og flaggað hvaða áhrif félagaform kunni að hafa á styrkjamöguleika. Það er auðvitað atriði sem þarf að vera alveg skýrt og tryggt.

Ég rak augun í umsagnir frá Rannís, Samtökum iðnaðarins og SA, og Samtökum verslunar og þjónustu sem lýsa yfir stuðningi við markmið frumvarpsins og áform stjórnvalda um að efla nýsköpunarumhverfi, rannsóknir og þróun hér á landi enn frekar. Ég er á því að það sé alveg tímabært að skoða og rýna fyrirkomulag opinbers stuðnings við nýsköpun með aukinn sveigjanleika að leiðarljósi.

Nú eru 14 ár frá stofnun Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands og mér finnst það vera atriði í því sambandi að umhverfið í þessum geira hefur breyst gríðarlega síðan þá. Ég er þeirrar skoðunar að starf Nýsköpunarmiðstöðvar hafi verið og sé gríðarlega mikilvægt. Mikilvægt er að búa vel um hnútana við veigamiklar breytingar sem þessar. Ég verð að viðurkenna að ég staldra við það þegar ég hlusta á umræður í dag og heyri áhyggjuraddir margra þingmanna hér í salnum hvað þann þátt málsins varðar, þ.e. undirbúning málsins og umgjörðina. Það er áhyggjuefni og vont að heyra þær raddir og áhyggjur sem lúta að miklu leyti að því hvernig að málinu er staðið, en vitaskuld ekki eingöngu, ég heyri það líka. Þeim áhyggjum deili ég, einfaldlega vegna þess að það er forsenda þess að vel geti tekist til að greining liggi fyrir á áhrifum, að samráð og samtal hafi átt sér stað og að svona mál sé unnið í sátt.

Það ætti að vera sjálfstætt markmið um mál sem þetta að það sé unnið í sátt. Hins vegar er ég ekki andsnúin því að skoða og endurskoða það hvernig hið opinbera getur best sinnt hlutverki sínu að þessu leyti. Ég er heldur ekki þeirrar skoðunar að Nýsköpunarmiðstöðin sé hið eina rétta svar þar, ég lít ekki svo á. En ég deili áhyggjum þeirra þingmanna sem hér hafa talað, ekki síst í dag, og fjallað um umgjörð málsins og undirbúning, því að hann er vitaskuld ákveðinn vegvísir um það hvernig til mun takast og hvernig til getur tekist ef málið hefur ekki verið unnið betur en þingmenn lýsa hér í dag.