151. löggjafarþing — 72. fundur,  23. mars 2021.

opinber stuðningur við nýsköpun.

322. mál
[17:41]
Horfa

Olga Margrét Cilia (P) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir framsöguna og verð að taka fram að mér finnst leiðinlegt að hæstv ráðherra, sem þetta mál heyrir undir, sé ekki hér til andsvara eða einhver úr hennar liði eða flokki. Mig langaði aðeins að reyna að eiga pínulítið samtal við hv. þingmann sem var með framsögu hér áðan um jafnréttismálin í tengslum við þetta nýja frumvarp. Ég kom inn á það áðan í ræðu minni að mér þykir ekki hafa verið gætt að jafnrétti kynjanna við gerð þessa frumvarps. Ég hefði frekar viljað sjá stefnumörkun í þá átt að auka aðgengi fyrir öll að nýsköpun. Mér finnst nýsköpunarumhverfið fremur karllægt og mér finnst að verið sé að reyna að færa þetta í einhvers konar karllægara form, sem ég hélt að væri ekki mögulegt, en það virðist nú vera raunin.

Er ekki heppilegra fyrir hið opinbera að verja fjármunum sínum í þá átt að auka aðgengi kvenna og jaðarsettra hópa að nýsköpunarumhverfinu? Það myndi eflaust auka nýsköpun. Ég vil aðeins koma inn á að það er nú þegar mikið af hátæknifyrirtækjum á Íslandi, sem talin voru upp áðan, og það hafa verið ýmiss konar prógrömm innan þeirra þar sem ungt fólk getur komið og þróað hugmyndir sínar. Það er m.a. hjá Marel, Össuri og CCP, sem eru þau tæknifyrirtæki sem við erum hvað stoltust af á Íslandi. Þess vegna langaði mig aðeins að fá umræðu eða spyrja hvort þessum fjármunum væri ekki einfaldlega betur varið í að efla nýsköpun á þann hátt að það séu fleiri sem geta tekið þátt og hvort það myndi kannski auka fjölbreytileika og sveigjanleika í þessu umhverfi, sem hefur vissulega breyst mjög mikið síðustu ár.