151. löggjafarþing — 72. fundur,  23. mars 2021.

menntastefna 2020--2030.

278. mál
[21:04]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf):

Virðulegi forseti. Þessi menntastefna er ansi víð og þarna er ansi margt undir. Sett eru fimm höfuðmarkmið. Svo er reynt að útfæra hvernig þeim markmiðum verði best náð og þau eru: Jöfn tækifæri fyrir alla, kennsla í fremstu röð, hæfni fyrir framtíðina, vellíðan í öndvegi, gæði í forgrunni. Þetta er ágætt og mjög gott en nokkuð almennt. Hæfni, vellíðan, gæði, jöfn tækifæri, fremsta röð — þetta eru góð og falleg orð og full af góðum ásetningi en engu að síður erum við daglega í þessu kerfi að glíma við vanlíðan, ójöfn tækifæri, misjöfn gæði og misjafna hæfni og þannig mun það verða meðan þetta skólakerfi verður við lýði. En það er gott að setja sér göfug og góð markmið þó að þau verði kannski dálítið eins og lífsreglurnar hans Þórbergs Þórðarsonar, sem hann setti sér á hverjum degi og braut jafnharðan og skrifaði þær síðan upp að morgni á ný. Það er um að gera að hafa góðan ásetning en það væri óneitanlega meira sannfærandi ef í fjármálaáætlun, sem við erum einmitt að fara að ræða nú á næstu dögum, væri gert ráð fyrir fjölgun nemenda í skólakerfinu á árinu 2022 líkt og átti sér stað á þessu ári. Er þó í þessari fjármálaáætlun gert ráð fyrir auknu atvinnuleysi. Við vitum að skólakerfið gegnir lykilhlutverki í atvinnuleysinu og fyrir utan það gegnir skólakerfið lykilhlutverki í Covid-ástandinu þar sem kennarar og aðrar stéttir sem starfa í skólunum hafa verið í framlínuhlutverki og unnið ómetanlegt starf og skólinn verið, til allrar hamingju, griðastaður fyrir börnin. Skólinn er vinnustaður barnanna okkar, íverustaður, staðurinn þar sem þau starfa alla virka daga frá því snemma á morgnana og fram eftir degi, staðurinn þar sem líf þeirra og tilvera er og það er óbærileg tilhugsun að einhverjum börnum líði illa á þeim stað.

Það er vert að minnast á það sem vel er gert. Kennaranemum hefur fjölgað vegna markvissra aðgerða, átaksaðgerða sem mikilvægt er að verði áfram og verði viðvarandi vegna þess að, eins og kemur fram í umsögn Kennarasambands Íslands um þessa menntastefnu, þriðjungur kennara mun hverfa frá störfum á fyrstu árum í kennslu, þ.e. það verða nokkur afföll í stéttinni. Með leyfi forseta, held ég áfram þar sem segir í þessari umsögn Kennarasambandsins:

„Á næstu árum fara stórir hópar af kennurum á eftirlaun og nýliðun heldur alls ekki í við í takt við þarfir skólasamfélagsins. Staðan er nú sú að aðeins 905 félagar KÍ eru yngri en 30 ára eða 8% og ef horft er til félaga í KÍ á aldrinum 30–35 ára eru þeir aðeins 1.102 eða 10% stéttarinnar. Tekið skal fram að inn í þessum tölum eru leiðbeinendur í leik-, grunn- og framhaldsskólum. Það er því ljóst að hér er mikilla og skilgreindra aðgerða þörf.“

Þetta segir í umsögn Kennarasambandsins og er full ástæða til að taka undir þau orð. Það er líka full ástæða til þess að horfa til þess misvægis sem hefur verið að eiga sér stað undanfarið í kennarastéttinni. Leikskólastigið þarf að styrkja verulega og það er langt því frá að þau viðmið náist sem eiga að vera um að tveir þriðju hluti þeirra sem starfa á leikskólum séu með kennaramenntun. Það er langt í frá að það viðmið hafi náðst og það er án þess að ég vilji varpa rýrð á störf þess góða fólks sem starfar í leikskólum og hefur margt mjög mikla reynslu og þekkingu og færni í sínu starfi og hefur starfað lengi í leikskólum án þess að hafa aflað sér formlegrar kennaramenntunar. Það er að engu að síður svo að kennaramenntunin veitir fólki nauðsynlegan grunn í þessu starfi ef vel á að vera.

Mig langar aðeins að nefna hér tónlistarskóla sem stundum vilja gleymast vegna þess að þeir gegna alveg gríðarlega mikilvægu hlutverki í þroska ungmenna. Við tölum oft um forvarnagildi tómstundastarfs og íþróttastarfs og síst skal ég draga úr því forvarnagildi sem er ærið eins og við vitum. En stundum er eins og það gleymist að tónlistarnám hefur líka gríðarlegt forvarnagildi. Tónlistarnám þroskar tiltekna eiginleika hjá börnum sem gera ungmennum kleift að ná árangri á öðrum sviðum líka. Það er þekkt að tónlistarnám þroskar heilann og heilastarfsemi fyrir utan það að börnum sem stunda hljóðfæranám og tónlistarnám er síður hætt við að leiðast út í óreglu. Hið sama gildir um listnám. Þar finnst mér vera töluvert mikið verk óunnið. Þess má geta varðandi tónlistarnámið að aðalnámskrá fyrir tónlistarskóla hefur ekki verið endurskoðuð í 20 ár og lög um tónlistarskóla eru frá árinu 1985. Það er full þörf á að endurskoða hvort tveggja. Og í því sambandi vil ég bara minna á að íslenskir tónlistarmenn hafa borið hróður lands og þjóðar víða um lönd og eru kannski þeir Íslendingar sem við erum einna stoltust af um þessar mundir.

Listnám, hvers kyns listnám og hvers kyns skapandi greinar, finnst mér að þurfi að vera ríkari hluti af námi í skólum en nú er. Það þarf að tryggja betur stöðu þeirra greina alveg frá leikskóla og upp úr. Þá á listgreinakennsla að vera í lykilhlutverki í öllu skólastarfi og áhersla á listgreinarnar þarf að vera miklu meiri en nú er.

Ýmsir hafa tekið til máls hér um starfs- og tækninám og ég tek undir flest af því sem hefur komið fram hjá hv. þingmönnum. Ég held að rétt eins og með listnámið þurfi að vefa þetta betur saman og vinna betur saman. Það er óheppilegt að það myndist í huga nemenda einhvers konar andstaða milli bóknáms annars vegar og starfsnáms og starfsþjálfunar hins vegar og vinnustaðanáms. Ég held að það þurfi að vera miklu meiri tengsl milli atvinnulífs og skólalífs og að vinnustaðir eigi að geta tekið við nemendum miklu meira en nú er og það eigi ekki að vera hindranir á milli þeirra sem vilja stunda nám á vinnustöðum og svo aftur náms í skólum. Þarna á að vera samfella og samstarf á milli.

Um lestrarkennslu má hafa mörg orð. Eins og ég nefndi áðan, í andsvari við hv. þm. Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur, er ekki við hæfi að alþingismenn séu að rekast í því hvernig haga eigi lestrarkennslu í landinu. Ég vil þó segja það hér að mér virðist að þjóðarsáttmáli um læsi sé orðið hálfgert öfugmæli, þetta sé meira eins og þjóðarsáttmáli um ólæsi, nánast eins og átak í því að auka ólæsi meðal barna og ungmenna í landinu.

Herra forseti. Skólakerfið eins og við þekkjum það var og er kannski að einhverju leyti enn, án þess að við gerum okkur alveg fyllilega grein fyrir því, upphaflega sniðið til þess að búa til embættismenn og ráðamenn, lögfræðinga, presta og heimspekinga. Slíkar stéttir, slíkt fólk öðlaðist í gegnum skólagöngu sína vald á ákveðinni orðræðu, ákveðinni orðræðu valdsins og gat svo beitt þessari orðræðu með skilvirkum hætti. Í einhverjum skilningi er kerfið enn þá byggt upp í kringum þennan kjarna, þ.e. að afla sér ákveðinnar grundvallarþekkingar og byggja svo utan um þessa þekkingu og geta beitt henni með orðfæri sem vitnar um vald viðkomandi á þessari þekkingu. Samt sem áður — og þetta vil ég setja í samhengi við það sem ég sagði áðan um listkennslu og skapandi greinar — þjálfum við börn og ungmenni alveg furðulega lítið í því að nota tungumálið á lifandi og frjóan hátt og skemmtilegan hátt, t.d. með því að skálda og bulla og leika sér með málið við nám. Við látum börnin nálgast íslensku eins og hún sé útlenska, þ.e. hér sé tungumál sem þau kunni eiginlega ekki og muni aldrei læra til hlítar. Þetta sé mjög erfitt tungumál, fullt af mjög erfiðum málfræðilegum útúrdúrum og undantekningum og reglum og þó að þessi börn kunni tungumálið þegar þau koma í skólann látum við eins og þetta sé bara eitthvert safn af torræðum reglum sem þau nái aldrei valdi á. Þetta sé ekki tæki til að skapa og leika sér með.

En við vitum það, herra forseti, að samfélagið hefur fram á síðustu ár ekkert endilega byggst á embættismönnum svona með gamla laginu eða prestum eða lögfræðingum eða heimspekingum þó að slíku fólki vegni ágætlega. Það hefur ekki endilega verið skilyrði fyrir því að vegna vel í lífinu hér á landi að hafa slíka þekkingu og slíka menntun og maður hefur ekki þurft stúdentspróf eða yfirleitt nokkur próf eða endilega mikla skólagöngu til að vegna vel í lífinu. Og kem ég þá hér að karlmönnum sem hafa ekki verið mikið gefnir fyrir bókina, eins og það er kallað, sumir hverjir. Þeir hafa getað orðið sér úti um menntun, þekkingu á alls konar störfum. Þeir hafa getað haslað sér þar völl, oft í svipuðum starfsgreinum og leikir þeirra sem barna snerust um. Það bendir hins vegar ýmislegt til þess, því miður, að þær leiðir sem þessir karlmenn hafa haft í gegnum tíðina og gegnum áratugina séu að þrengjast, jafnvel að lokast. Með þessum opna vinnumarkaði þurfi óskólagengnir karlmenn sem eru ekki sérhæfðir á tilteknu sviði að keppa við sérhæft vinnuafl frá öðrum löndum sem kann jafn vel ef ekki betur til verka.

Herra forseti. Ég ætla ekki að fjalla sérstaklega meira um þessi fimm höfuðmarkmið sem ég nefndi í upphafi máls míns eða að fara ofan í saumana á því sérstaklega hvernig við náum fram þeim markmiðum. Þau eru mjög almenn; í fremstu röð, jöfn tækifæri, hæfni, vellíðan, gæði. Þetta eru þannig markmið að það er erfitt að fara ofan í saumana á því nákvæmlega hvernig við náum þeim fram.

Mig langar að nefna eitt í lokin sem mér fannst svolítið sláandi. Ég gerði mér það til dundurs að ég sló inn, þegar ég var með menntastefnuna á skjánum, orðið leikur, leitaði að orðinu leikur. Þið munið eftir kvæðinu góða: Það er leikur að læra, leikur sá er mér kær, að vita meira og meira, meira í dag en í gær, og þar fram eftir götunum. Mér finnst nefnilega að leikur eigi að vera eins og rauður þráður í gegnum menntastefnuna okkar, það eigi að vera lykilorðið. Það eigi að vera leikur að læra og það að læra sé leikur einn. Þegar börn leika sér þá eru þau að læra, rétt eins og allt ungviði gerir.

Ég held að það sé margt mjög vel gert, svo það sé sagt, í skólakerfinu og ég held að við eigum mikið af hugmyndaríkum og góðum og snjöllum kennurum sem gefa mikið af sér. En ég held að það sé of mikið um það að börn finni það jafnvel snemma að þau uppfylli ekki einhverjar kröfur skólakerfisins og ég held að skilin við flutninginn úr leikskóla yfir í grunnskóla eigi ekki að vera alveg svona skörp. Börnin eiga aldrei að taka eftir því að þau séu hætt að leika sér. Þau eiga ekkert að vera hætt að leika sér. Það á að vera leikur að læra og það að læra á að vera leikur.