151. löggjafarþing — 72. fundur,  23. mars 2021.

menntastefna 2020--2030.

278. mál
[22:40]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið og verð að segja varðandi fjármagn til sálfræðiþjónustu, í fyrsta lagi, að því var auðvitað kastað út af borðinu strax, innan við sólarhring eftir að Alþingi samþykkti að sálfræðiþjónusta skyldi vera hluti af sjúkratryggingakerfinu á Íslandi. Sú sálfræðiþjónusta er því ófjármögnuð í ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur og alveg augljóst að hún verður það áfram, a.m.k. næstu fjögur árin ef þessi ríkisstjórn fær áframhaldandi umboð. Það er ekkert fjármagn til að grípa þessa námsmenn. Hvergi er talað um að fjármagna geðrækt af neinu tagi heldur á þetta bara einhvern veginn að eiga sér stað einhvers staðar annars staðar, mögulega heima fyrir án stuðnings.

Aðeins varðandi þá sálfræðiþjónustu sem veitt er hefur auðvitað verið sett aukið fjármagn til sálfræðiþjónustu í heilsugæslu. Þar eiga börn að eiga þess kost að sækja sálfræðiþjónustu. Biðlistar eru mjög langir enda eru mjög fáir að störfum við þessa þjónustu. Ef við horfum á þetta út frá skólakerfinu og menntakerfinu erum við með þannig menntakerfi að eftir um tvo þriðju náms í framhaldsskólum, og mögulega helming náms, er barn orðið fullorðinn einstaklingur og dettur út úr öllum mögulegum stuðningi hvað þetta varðar. Fyrir námsmann sem ekki getur farið með reikninga til stéttarfélags fyrir sálfræðikostnaði er alger ómöguleiki til staðar að fá sálfræðiþjónustu.