151. löggjafarþing — 73. fundur,  24. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[16:59]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Aðgerðirnar sem grípa þarf til svo að ríkisstjórnin nái skuldaviðmiði sínu árið 2025, en treystir sér ekki til að segja hvar bera skuli niður, nema 90 milljörðum kr. á þremur árum. Þær eru reyndar af einhverjum ástæðum kallaðar afkomubætandi aðgerðir af ríkisstjórn sem hljómar vissulega betur en niðurskurður og skattahækkanir en merkir það sama. Hagspá gerir ráð fyrir miklu atvinnuleysi árið 2026 eða um 5%. Um 10.000 manns verða samkvæmt því enn atvinnulaus eftir fimm ár sem er langt yfir meðaltali undanfarinna áratuga.

Leiðin sem ríkisstjórnin virðist vilja fara til að vinna bug á langtímaatvinnuleysi er að lækka launastig í stað þess að auka verðmætasköpun. Á síðustu árum hafa fjárframlög til nýsköpunar verið aukin en sá stuðningur stendur ekki lengi því strax eftir tvö ár hefur upphæðin lækkað um rúman fjórðung og um 34% á fimm árum. Til lengri tíma veðjar ríkisstjórnin ekki á nýsköpun og þróun í greinum sem þó má búast við að greiði hærri laun og auki við framleiðni. Í áætluninni er talað um að undirliggjandi vandi sé til staðar sem felist í hækkun launastigs umfram framleiðniaukningu. Það geti leitt til langtímaatvinnuleysis nema, og hér er bein tilvitnun í greinargerð með fjármálaáætluninni, með leyfi forseta, „aðilar vinnumarkaðarins sammælist um nýtt og skilvirkara kjarasamningslíkan sem getur stuðlað að jafnvægi á vinnumarkaði og aukið með því stöðugleika öllum til hagsbóta“. Má skilja þessa klausu svo að ríkisstjórnin telji að það sé á ábyrgð þeirra sem lægst hafa launin að sjá um stöðugleikann og þau verði einfaldlega að slá af kröfum sínum um kjarabætur, annars fái þau kannski bara enga vinnu?