151. löggjafarþing — 73. fundur,  24. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[17:15]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og rakið er í rammagrein 4 í þessu riti, fjármálaáætlun, þá hefur fjárfesting ríkissjóðs verið að vaxa undanfarin ár og við höfum verið í sérstöku fjárfestingarátaki. Eftir að hafa lýst yfir sérstöku átaki strax í upphafi þessa faraldurs um 18 milljarða á árunum 2020 og 2021 erum við nú búin að framlengja þetta átak og það nemur 119 milljörðum á árunum 2020–2025. Það breytir því ekki, eins og rakið er í áætluninni, að okkur hefur ekki tekist að koma öllum þeim fjárheimildum sem tryggðar voru í fjárlögum, bæði í fjárauka og í fjárlögum yfirstandandi árs, í vinnu samkvæmt áætlun. Því er velt upp, og ég tel að það sé bara gert með mjög gagnsæjum hætti og af fullum heiðarleika, hvers vegna það er. Við tökum frá háar fjárhæðir í því augnamiði að auka fjárfestingarstigið til skamms tíma, m.a. til að berjast gegn atvinnuleysi, og við veljum sérstaklega mannaflsfrek verkefni sem auka þjóðhagslega hagkvæmni og forgangsröðum þeim og því er velt upp hvers vegna okkur tekst ekki betur en raun ber vitni að koma peningunum í vinnu. Komið er inn á þetta í sérstakri rammagrein í áætluninni. Ég tel að það sé umræðu virði að lágmarki í fjárlaganefnd og við ættum að velta því fyrir okkur og skoða, fara hreinlega ofan í saumana á því, hvort það liggur meira í skipulagslegum þáttum — þá er ég að meina í lögum um skipulagsmál og samskiptum við sveitarfélög — eða hvort stofnanirnar sem í hlut eiga hafi einfaldlega ekki þekkingu, jafnvel ekki mannafla, til að vinna úr jafn háum fjárhæðum og við erum hérna að vinna með. Mögulega ættum við að fara meira í útboð. Ég vek athygli á því að Framkvæmdasýsla ríkisins er með á prjónunum gríðarlega háar fjárhæðir í útboðum. Við þurfum að kljúfa þetta en það stendur samt sem áður eftir að ríkisstjórnin er í fjárfestingarátaki.