151. löggjafarþing — 73. fundur,  24. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[18:10]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Sú áætlun sem við samþykktum í desember og erum að fjalla um núna byggir, rétt eins og hv. þingmaður segir, á ákveðnum gögnum. Við höfum stundum gagnrýnt að hafa einhverja eina hagspá en ekki fleiri undir því sem við byggjum ákvarðanir okkar á, við höfum oft rætt það í fjárlaganefnd. Sannarlega er það alltaf verkefni ríkisstjórnar á hverjum tíma að reyna að koma til móts við það plagg sem lagt er fram og samþykkt. Um leið og við hljótum að gleðjast yfir því að hafa skilað betri hagnaði á síðasta ári, eða minni skuldum, þá reynum við að reikna okkur áfram í því. Það er í rauninni það sem við erum að gera í þeim spám sem nú liggja fyrir og birtast á sama tíma og áætlunin. Ég tel að við séum að gera rétt með því að gera þetta svona. Þetta er alltaf ákveðinn eltingaleikur. Ég held að það verði alltaf þannig. Ég skil alla vega hv. þingmann svona en það getur vel verið að ég nái ekki utan um það sem hann er að spyrja mig að.

Á hverjum tíma erum við með einhverja spá undir sem við reynum að uppfylla. Hér erum við að framreikna miðað við þær forsendur sem við höfum í dag og ætlum alltaf að gera betur. Ég tel að við séum að gera það, að reyna að vinna úr ástandinu og gera betur en síðast. Eins og hér er nefnt kemur fram í spám að atvinnuleysi verði ákveðið mikið í lok tímabils o.s.frv. og við hljótum alltaf að reyna að gera betur en það.