151. löggjafarþing — 73. fundur,  24. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[18:56]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni spurninguna um sveitarfélögin. Ég kom inn á einmitt þetta í ræðu og tengdi það því að við værum á krítískum tímapunkti varðandi sóttvarnir og framvindu bólusetninga og ekki síst efnahagslegar aðgerðir. Hættan er sú þegar við erum að horfa til kosninga að við töpum einbeitingunni á það sem við eigum raunverulega að vera að gera, bara á hverjum degi; að horfa til þess að við komumst öll sameinuð út úr þessari kreppu. Það gildir líka um þau sveitarfélög sem við höfum sannarlega reynt að horfa til, sem eru kannski hvað mest háð ferðaþjónustu. Við þurfum að horfa til þeirra og við höfum gert það í hv. fjárlaganefnd. Við höfum til að mynda horft mikið til sóknaráætlana og framlaga til þeirra sveitarfélaga sem verst hafa orðið úti. Við þurfum að halda því áfram og horfa ekki bara á heimilin (Forseti hringir.) heldur líka ferðaþjónustutengd fyrirtæki og þau svæði sem hafa orðið hvað verst úti (Forseti hringir.) og við höfum tækifæri til þess næstu daga.