151. löggjafarþing — 73. fundur,  24. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[19:52]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég mæli eindregið með 200 mínútna ræðum, það gæti sett skemmtilegan blæ á þingstörfin. Í fyrsta lagi reifar hv. þingmaður þessa áætlun og það er hárrétt að hún er sett fram við aðstæður sem eru hreinlega þannig að þær gera langtímaáætlanagerð töluvert erfiða í framkvæmd. Ég held að hv. þingmaður hafi skilning á því að sú staða sem við höfum verið í undanfarið ár — ófyrirsjáanleg, fordæmalaus og öll þau ágætu orð — gerir það einfaldlega mjög erfitt að ráðast í langtímaáætlanagerð. Það sést best á því að afkoma ríkisins hefur batnað á áætlanatímabilinu frá áætluninni sem við samþykktum í desember, þ.e. forsendur áætlunarinnar hafa breyst. Þjóðhagsspá Hagstofunnar gerir ráð fyrir töluvert betri afkomu ríkissjóðs en hún gerði í desember sem segir okkur sitt um það verkefni að ráðast í langtímaáætlanagerð á þessum tímum. Að sjálfsögðu geta sóttvarnaráðstafanir, eins og hv. þingmaður kom að, haft áhrif á efnahagskerfið. En ég held hins vegar, og það er mjög mikilvægur punktur, að þær sóttvarnaráðstafanir sem við höfum ráðist í á Íslandi, sem byggja á mjög skýrri aðferðafræði um mikla skimun, smitrakningu og beitingu sóttkvíar og einangrunar, hafa skilað betri sóttvarnaárangri en mun harðari aðgerðir eins og útgöngubann í nágrannalöndum okkar og með minni samfélagslegum og efnahagslegum skaða. Að því leyti til held ég að við sem samfélag séum að ná því markmiði okkar að lágmarka þann skaða sem verður af ráðstöfunum.

Hv. þingmaður nefnir hér báknið í forsætisráðuneytinu. Þessi umræða er okkur ekki alls ókunnugleg, við höfum átt hana áður, en ég hlýt að minna hv. þingmann á að meðal þess sem hefur gerst á kjörtímabilinu er að málaflokkur jafnréttismála var færður yfir í forsætisráðuneytið. (Forseti hringir.) Síðan var ákveðið að ráðast í viðbyggingu við forsætisráðuneytið.