151. löggjafarþing — 73. fundur,  24. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[19:54]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Hæstv. ráðherra tekst ekki að draga mig inn í umræðu um viðbyggingu við forsætisráðuneytið, við þurfum að gera það þegar ég hef meiri tíma. Hins vegar liggur ljóst fyrir að útgjaldaaukning ráðuneytisins er gríðarleg þrátt fyrir að málaflokkur jafnréttismála hafi verið áður í þessu ráðuneyti. Og ekki fengust mikil svör við því hvar þessi ríkisstjórn sæi fyrir sér að hægt væri að spara á næsta kjörtímabili. Væntanlega vill stjórnin ekki gera grein fyrir því, hafi hún einhverjar slíkar hugmyndir yfir höfuð.

Hæstv. forsætisráðherra talaði mikið um áhrif faraldursins og sóttvarna. Þá myndi ég gjarnan vilja að hæstv. ráðherra botnaði þá vísu með því að ræða áhrif bólusetninga því þar liggur vandinn. Nú síðast í kvöld upplýsti einn af hv. þingmönnum stjórnarliðsins landsmenn um að Evrópusambandið væri búið að setja Ísland á bannlista hvað varðar útflutning bóluefna. Þetta er allt þakklætið fyrir undirgefnina sem íslensk stjórnvöld, ríkisstjórn Íslands, hafa sýnt Evrópusambandinu með því að halda áfram að láta draga sig ofan í þann forarpytt sem samkomulag Evrópusambandslanda um öflun bóluefna er orðið, þrátt fyrir að mörg Evrópusambandslönd reyni að klóra sig upp úr þeim aðstæðum. Ísland er auðvitað í miklu betri stöðu á flestan hátt en þau lönd til að gera það. Því hlýtur maður að velta því fyrir sér hvort hæstv. ráðherra geti þá notað tækifærið nú, fyrst að ráðherranum verður tíðrætt um áhrif faraldursins, til að sannfæra okkur um að það verði stefnubreyting og íslensk stjórnvöld, ríkisstjórnin, taki af skarið með það að útvega bóluefni til að koma í veg (Forseti hringir.) fyrir áframhaldandi milljarðs króna tap fyrir samfélagið á hverjum degi.