151. löggjafarþing — 73. fundur,  24. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[20:03]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Minni samdráttur. Hæstv. forsætisráðherra er dottinn í meðaltölin. Það er vissulega minni samdráttur í heildina en gert var ráð fyrir. En þegar það er haft í huga að þetta deilist annars vegar á okkur sem erum svo heppin að hafa vinnu og höfum há laun og hins vegar þau sem bera skellinn þá blasir allt önnur mynd við. Mörg okkar og heimili okkar hafa beinlínis hagnast í þessari kreppu vegna eignabólu, hækkunar á hlutabréfum og öðru slíku á meðan það eru 26.000 manns sem bera hitann og þungann af þessu. Ríkisstjórnin gerir í eigin áætlunum, miðað við bjartsýnustu spár, ekki ráð fyrir að atvinnuleysi verði minna en 7% á næsta ári. Þjóðhagsspá er vissulega spá, eins og hæstv. forsætisráðherra segir, en það vantar í fjármálaáætlunina einhverja trúverðuga og bjartsýnni áætlun um hvernig á að ná betri stöðu en spáin gerir ráð fyrir. Áætlunin á bak við þessi 7.000 störf sem minnst var á er ekki nógu trúverðug og það vantar miklu meira kjöt á beinin.

Hæstv. forsætisráðherra talar um að ríkisstjórnin hafi mildað kreppuna og hæstv. fjármálaráðherra talar um að heimilin hafi það jafnvel betra en áður. Já, heimilin að meðaltali. En þá verð ég aftur að segja: Það er ekki það sama heimili og heimili, ekki heimili mitt eða heimili þess atvinnulausa. Það verður einfaldlega, af tilliti til þeirra aðila sem nú standa í ströngu, að koma betur til móts við þá, en það verður einnig að gera það til að ná betra jafnvægi á þjóðarbúskapinn vegna þess að tala á blaði með skuldaafkomu skiptir engu máli í stóra samhenginu ef við erum búin að byggja upp samfélag sem er splittað í tvennt (Forseti hringir.) milli þeirra sem eru heppnir og hafa það mjög gott og jafnvel betra en fyrir kreppu, og þeirra sem hafa miklu verra og mun taka áratugi að vinna sig út úr.