151. löggjafarþing — 73. fundur,  24. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[20:50]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Bara að þessu síðasta sem hv. þingmaður nefndi. Ég sá ekki umrætt Kastljóssviðtal en það er algerlega skýrt að atvinnuleitendur geta farið utan í atvinnuleit og haldið bótum í ákveðinn mánaðafjölda. Hins vegar er gert ráð fyrir því að atvinnuleitendur séu hér á landi í virkri atvinnuleit utan þess tíma eða í námi eða öðrum aðgerðum og það er gríðarlega mikilvægt fyrir skilvirkni í því kerfi.

Þegar kemur að lengingu bótatímabils nefndi hv. þingmaður að sá sem hér stæði væri á móti því. Já, ég hef verið á móti því í þeirri mynd sem Samfylkingin hefur lagt til vegna þeirra sem eru með atvinnuleysisbætur, grunnatvinnuleysisbætur í 30 mánuði, sem eru rúmlega 300.000 kr. Hvaða aðgerð vorum við að kynna í samstarfi við sveitarfélögin? Við vorum að kynna það að allir þeir sem hafa verið atvinnulausir í 24–30 mánuði auk þeirra sem hafa verið að klára bótaréttinn síðustu sex mánuði geti núna í samstarfi við sveitarfélögin farið í vinnu, í störf sem verða sköpuð af sveitarfélaginu. Þar tryggjum við að lágmarki tekjutengdar bætur sem eru 500.000 kr. á mánuði þannig að við erum búin að lengja bótatímabilið í formi atvinnu og í formi hærri tekna. Þetta stuðlar síðan … (Gripið fram í.) Það er fyrir alla þá sem hafa lokið bótatímabili, hv. þingmaður. Við stuðlum líka að auknum tekjum sveitarfélaga. Það er þess vegna sem ég er á móti tillögu Samfylkingarinnar um að framlengja bótatímabilið í þeirri mynd sem það er. (Gripið fram í.) Það er gert ráð fyrir því að hver einasti einstaklingur sem klárar sinn bótarétt geti farið inn í þetta verkefni þar sem hann fær hátt í tvöfalda framfærslu. Honum er sköpuð vinna, (Gripið fram í.) virkni, sköpuð vinna og virkni, (Gripið fram í.) og um það snýst þetta verkefni. Við skulum bara tala saman eftir sex mánuði, hv. þingmaður. Þessi tillaga er miklu betri en tillaga Samfylkingarinnar um að lengja bótarétt úr 30 í 35 mánuði á grunnatvinnuleysisbótum án virkni.